Olaf Scholz, kanslari Þýskalands, heitir því að herða löggjöf um vopnaburð í landinu og fara í allsherjar átak gegn ólöglegum innflytjendum.
Þetta segir kanslarinn í kjölfar þess að sýrlenskur karlmaður, að nafni Issa Al H., játaði að hafa framið hnífaárás í borginni Solingen í Þýskalandi á föstudag þar sem þrír létust og átta særðust.
Verknaðurinn hefur vakið mikla umræðu um innflytjendamál í landinu en maðurinn er sagður hafa tengsl við Íslamska ríkið.
Ríki íslams hefur sagt að árásin sé „hefnd fyrir múslima í Palestínu og alls staðar“, með vísan í stríðið á Gasa.
Þá hefur íslamskur áróðursmaður ISIS sagt að árásin hafi verið framkvæmd af hermanni Íslamska ríkisins.
Samkvæmt þýska miðlinum Spiegel á maðurinn að hafa komið til Þýskalands í desember árið 2022 og var hann umsækjandi um alþjóðlega vernd. Maðurinn var ekki undir eftirliti öryggislögreglu Þýskalands.