Robert F. Kennedy jr. dró framboð sitt til baka í 10 sveifluríkjum síðastliðinn föstudag og lýsti yfir stuðningi við Donald Trump forsetaframbjóðanda repúblikana. En hvernig hefur þetta áhrif á sigurlíkur Trumps?
Þetta er stóra spurningin sem demókratar, repúblikanar, fjölmiðlar, álitsgjafar og kjósendur vestanhafs velta nú fyrir sér.
Í sjö helstu sveifluríkjunum; Nevada, Arizona, Georgíu, Norður-Karólínu, Pennsylvaníu, Michigan og Wisconsin mælist Kennedy með meira fylgi en aðskilur Kamölu Harris, forsetaframbjóðanda demókrata, og Trump.
Samkvæmt RealClear Politics er munurinn á fylgi Harris og Trumps í sveifluríkjunum, þegar allir óháðir frambjóðendur eruj teknir með í reikninginn, í mesta lagi 2,3% og það er Harris í vil í Michigan. Í öðrum ríkjum er munurinn minni.
Kennedy er að mælast með á bilinu 4%-5,8% fylgi í sveifluríkjunum sjö og því vel hægt að sjá hvernig stuðningur hans við Trump getur haft áhrif.
Það er þó ekki þar með sagt að fylgið hans fari núna allt til Trumps. Ýmsar kannanir hafa sýnt sem dæmi að stuðningsmenn hans séu ekki jafn líklegir til að mæta á kjörstað og stuðningsmenn Trumps og Harris.
Nate Silver, einn þekktasti álitsgjafi og spámaður bandarískra stjórnmála, tekur saman meðaltal kannana og vigtar tölurnar mismunandi miðað við ýmsa þætti.
Í hans spálíkani er Trump að bæta við sig innan við hálfu prósentustigi, umfram Harris, á landsvísu vegna ákvörðunar Kennedys. Það hljómar kannski ekki eins og mikið en sem dæmi fékk Joe Biden Bandaríkjaforseti 0,3% fleiri atkvæði en Trump í Georgíu árið 2020.
Sigurlíkur Harris eru þær sömu og þær voru áður en Kennedy lýsti yfir stuðningi við Trump, eða um 53% líkur á sigri Harris.
Kennedy sagði í viðtali við Dr. Phil sem birtist á dögunum að innherjamælingar Kennedy-kosningabaráttunnar sýndu að hans stuðningsmenn myndu frekar kjósa Trump.
„Mér fannst ekki rétt að gefa henni [Harris] sigurinn. Og skoðanakannanir okkar frá upphafi sýndu nokkuð stöðugt að ef ég færi úr framboði myndu 57% þeirra sem styddu mig kjósa Trump,“ sagði Kennedy.
Kosningateymi Trumps lak til fjölmiðla minnisblaði frá Tony Fabrizio, sem er yfir könnunum hjá Trump-teyminu, í kjölfar þess að Kennedy lýsti yfir stuðningi við Trump.
Minnisblaðinu hefur væntanlega verið lekið til þess að skapa meiri stemningu í kringum ákvörðun Kennedys en þar kemur fram að innherjamælingar Trump-teymisins sýni að Trump græðir á ákvörðuninni.
Þar kemur eftirfarandi fram:
Þessar tölur stemma almennt við fullyrðingu Kennedys en ber þó að taka með fyrirvara þar sem um innherjamælingar er að ræða.
Miðstjórn Demókrataflokksins (DNC) sendi frá sér minnisblað þar sem var einfaldlega fullyrt að ákvörðun Kennedys hefði engin áhrif á baráttuna.
Á næstu vikum mun koma frekar í ljós hversu mikið Trump græddi á stuðningsyfirlýsingu Kennedys. Ætla má að hann hafi grætt eitthvað, þótt það sé líklega verulega takmarkað.