Emmanuel Macron Frakklandsforseti útilokaði í dag að hann muni tilnefna ríkisstjórn undir forystu nýju lýðfylkingarinnar (NFP) sem er bandalag vinstri flokka í Frakklandi. Í tilkynningu frá forsetanum segir að ef vinstri flokkarnir væru við stjórn væri verið að ógna „stofnanastöðugleika“ í landinu.
Vinstriflokkarnir í Frakklandi eru virkilega ósáttir með ákvörðun Macrons og hafa hvatt til mótmæla á götum Frakklands. Þá hafa þeir hótað að ákæra forsetann fyrir embættisglöp.
Í kosningunum fékk Nýja lýðfylkingin flest sæti á þinginu í síðari umferð, eða 187 sæti. Til að fá hreinan meirihluta á franska þinginu þarf 289 sæti, ljóst er að enginn flokkur náði honum. Macron segir að vinstristjórn nyti aldrei trausts á þinginu.
Kosningarnar voru haldnar í byrjun júlímánaðar en ákveðið var að bíða með stjórnarmyndunarviðræður þar til Ólympíuleikunum í París lyki.
Macron hefur nú hafið viðræður við aðra formenn stjórnmálaflokka til að mynda ríkisstjórn.
Hann hefur meðal annars rætt við Marine Le Pen, formann Þjóðfylkingarinnar, en flokkurinn hafnaði í þriðja sæti í annarri umferð frönsku þingkosninganna eftir að hafa sigrað fyrri umferð kosninganna.