Mikið högg fyrir mannúðarstarf á svæðinu

Rústir í Deir el-Balah, sem er miðsvæðis á Gasasvæðinu.
Rústir í Deir el-Balah, sem er miðsvæðis á Gasasvæðinu. AFP

Sameinuðu þjóðirnar gáfu í gær út að mannúðarstarf á Gasa hefði orðið fyrir miklu höggi eftir að Ísraelar fyrirskipuðu brottflutninga frá frá Deir el-Balah.

Á sunnudag skipaði ísraelski herinn fólki að „flytja tafarlaust“ frá hluta Deir el-Balah, sem er staðsett fyrir miðju Gasa, með þeim afleiðingum að fjöldi óbreyttra borgara og starfsmanna Sameinuðu þjóðanna og annarra mannúðarsamtaka á svæðinu lögðu á flótta.

Hefur áhrif á mikilvæga innviði

Í yfirlýsingu frá mannúðarskrifstofu Sameinuðu þjóðanna koma fram miklar áhyggjur af fyrirskipuninni látnar í ljós og sagt að hún „kollvarpi í raun starfi heillar mannúðarmiðstöðvar sem sett var á laggirnar í Deir el-Balah í kjölfar lokunar slíkrar miðstöðvar í Rafah í maí.“ 

Skipunin hafði áhrif á 15 byggingar sem hýstu hjálparstarfsmenn Sameinuðu þjóðanna og annarra félagasamtaka, vöruhús Sameinuðu þjóðanna og hreinsunarstöð fyrir vatn. Þá hafði hún sömuleiðis áhrif á Al-Aqsa-sjúkrahúsið, eitt fárra sjúkrahúsa sem enn er starfrækt á Gasa.

„Skipunin hefur alvarleg áhrif á getu okkar til að veita nauðsynlegan stuðning og þjónustu,“ sagði í yfirlýsingunni.

Taka niður hryðjuverkamannvirki

Ísraelski herinn gaf í gær út að fyriskipaði brottfluttningurinn frá Deir el-Balah miðaði að því að ná „hryðjuverkamönnum“ á svæðinu og taka niður „hin eftirstandandi hryðjuverkamannvirki“ Hamas.

Stríðið milli Hamas og Ísraels hefur nú staðið yfir í meira en 10 mánuði og skilið stóran hluta Gasa eftir í rústum, eyðilagt heilbrigðiskerfi svæðisins og komið af stað skelfilegri mannúðarkreppu og hungursneyð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert