Samið í deilu flugliða SAS

Samkomulag um kjör flugliða SAS í Noregi náðist undir morgun …
Samkomulag um kjör flugliða SAS í Noregi náðist undir morgun eftir erfiða samningalotu sem kostað hafði verkfall frá því fyrir helgi. AFP

Verkfalli flugliða skandinavíska flugfélagsins SAS á norskum flugvöllum lauk fyrir fáeinum klukkustundum eftir að samningar tókust nú snemmmorguns með stéttarfélögunum Parat og Fellesforbundet annars vegar og vinnuveitendasamtökunum NHO Luftfart hins vegar, eftir því sem norski ríkissáttasemjarinn Mats Ruland greinir ríkisútvarpinu NRK frá.

„Okkur er létt, vinnudeilur eru langt í frá auðveldar og það að við náðum öllum okkar helstu samningamálum markar okkur söguleg spor,“ segir Jørn Eggum formaður Fellesforbundet eftir samningalotu sem á tímabili var tvísýn.

Hækkanirnar umtalsverðar

Tókust samningsaðilar einkum á um launahækkanir, frí um helgar og fæði á vinnutíma og fellst Erik Lahnstein talsmaður NHO á það með Eggum að uppskera langra samningafunda hjá sáttasemjara sé ánægjuefni.

„Ég kýs að nefna ekki krónutölur sérstaklega en við megum fagna því að hafa náð samkomulagi. Hækkanirnar voru umtalsverðar auk þess sem frídagamálum og öðrum þrætueplum var siglt í örugga höfn,“ segir Lahnstein við NRK.

Verkfallið, sem hófst á föstudaginn, hafði þegar komið illa við þúsundir skandinavískra flugfarþega og hafði þrjátíu brottförum í Noregi þegar verið aflýst nú á morguntímum þriðjudags áður en ljóst varð að deiluaðilar næðu sáttum.

NRK

VG

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert