Stjórnvöld þrýstu á Facebook

Forstjóri Meta, Mark Zuckerberg, telur þrýsting stjórnar Joes Bidens Bandaríkjaforseta …
Forstjóri Meta, Mark Zuckerberg, telur þrýsting stjórnar Joes Bidens Bandaríkjaforseta á Facebook meðan á heimsfaraldrinum stóð hafa verið óviðeigandi. AFP/Mandel Ngan

Bandarísk stjórnvöld lögðu hart að Meta, móðurfyrirtæki samskiptamiðilsins Facebook, að hagræða staðreyndum árið 2021 í því efni sem birtist á síðum Facebook um heimsfaraldur veirunnar covid-19.

Frá þessu greinir stjórnarformaður Meta og stofnandi Facebook, Mark Zuckerberg, og lætur um leið í ljós það álit sitt að þrýstingurinn hafi að hans mati verið óviðeigandi fyrir Joe Biden Bandaríkjaforseta og stjórnvöld hans.

Þá gaf stjórnarformaðurinn það upp að hann hygðist ekki endurtaka þann leik faraldurstímans að styrkja óhagnaðardrifin fyrirtæki til að styðja við bak forsetaframbjóðenda í einstökum ríkjum Bandaríkjanna – uppátæki sem vakti miklar gagnrýnisraddir úr röðum repúblikana auk þess að freista stjórnvalda margra ríkja, sem hliðholl eru flokknum, til að leggja bann við því.

Leyndu ekki gremju sinni

Ritaði Zuckerberg Jim Jordan, fulltrúadeildarþingmanni Ohio-ríkis og formanni dómsmálanefndar þingsins, bréf þar sem hann greindi frá þrýstingi Bidens og stjórnar hans, meðal annars því að embættismenn á vegum forsetans, þar á meðal frá Hvíta húsinu, hefðu „ítrekað farið þess á leit við teymi okkar að þau breyttu ákveðnu efni um covid-19, þar með talið bröndurum og háðsádeilu, og leyndu ekki gremju sinni þegar við féllumst ekki á það sem um var beðið“.

Yfirlýst markmið Facebook á þessum tíma var að hvetja milljónir manns til að þiggja bólusetningar fyrir veirunni. Bryddaði Zuckerberg ekki upp á því í bréfinu hvort það markmið væri enn til staðar nú, né hvort honum þætti stjórn Bidens hafa gengið of langt við að ná fram vilja sínum.

Sömu ákvarðanir ekki teknar nú

Í fyrra fjallaði dagblaðið Wall Street Journal um orðaskak milli Meta og Hvíta hússins vegna efnis á Facebook sem tengdist faraldrinum og lét þess getið í umfjöllun sinni að undir efnið, sem til umræðu var, hafi einnig gamanmál og háðsádeila fallið.

Segir Zuckerberg að sannfæring hans sé sú að þrýstingur stjórnvalda hafi verið „rangur og ég sé eftir því að hafa greint svo takmarkað frá honum“. Kvað hann Meta hafa þurft að taka ákvarðanir sem nú á dögum – í ljósi endurskoðunar og nýrra upplýsinga – yrðu ekki teknar.

Talsmaður Hvíta hússins kvaðst „hvetja til skynsamlegra aðgerða svo gæta megi að öryggi og heilsu almennings. „Staða okkar hefur verið skýr og stöðug, við erum þeirrar skoðunar að hátæknifyrirtæki og aðrir einkaaðilar skyldu taka það með í reikninginn hvaða afleiðingar gjörðir þeirra hafa á Bandaríkjamenn samhliða því sem þeir taka sjálfstæðar ákvarðanir um þær upplýsingar sem þeir dreifa,“ sagði talsmaðurinn um það mál sem hér ræðir um.

Wall Street Journal (læst áskriftargrein)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert