Trudeau reisir Kínverjum tollmúr

Justin Trudeau forsætisráðherra greindi frá nýjum hundrað prósenta tolli á …
Justin Trudeau forsætisráðherra greindi frá nýjum hundrað prósenta tolli á rafmagnsbifreiðar frá Kína. AFP

Kanadíski forsætisráðherrann Justin Trudeau gaf það út í gær að þarlend stjórnvöld legðu hundrað prósenta toll á rafmagnsbifreiðar innfluttar frá Kína og fylgdu þar með í fótspor nágranna sinna í Bandaríkjunum sem einnig hafa gert ráðstafanir til að stemma stigu við holskeflu bifreiða sem kínversk stjórnvöld greiða niður til útflutnings.

Lét Trudeau þau orð falla að Kínverjar, einn stærsti útflytjandi rafmagnsbifreiða í heiminum, léku ekki „eftir sömu leikreglum og önnur ríki“ hvað umhverfis- og mannauðssjónarmið varðar og kynnti auk þess nýjan 25 prósenta toll á kínverska stál- og álframleiðslu.

Moka fé í græn orkuskipti

Hvor tveggja, Bandaríkin og Evrópusambandið, hafa á nýliðnum mánuðum kynnt til sögunnar ný innflutningsgjöld á rafmagnsbifreiðar frá kínverskum framleiðendum.

Í Kanada starfa rúmlega 125.000 manns við bifreiðaverksmiðjur og hefur höfuðborgin Ottawa ein og sér veitt milljörðum kanadadala til grænna orkuskipta og rafhlöðuframleiðslu til notkunar í rafmagnsbifreiðar.

Kínverska sendiráðið í Kanada bregst ókvæða við nýju tollunum og segir þá aðeins munu skaða milliríkjaviðskipti þessara stóru iðnríkja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert