Varar við nálægð stríðsátaka við kjarnorkuver

Rafael Grossi framkvæmdarstjóri Alþjóðakjarnorkumálastofnunar.
Rafael Grossi framkvæmdarstjóri Alþjóðakjarnorkumálastofnunar. AFP

Rafael Grossi, framkvæmdastjóri Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar (IAEA), varar við nálægð átaka Úkraínu og Rússlands við kjarnorkuver Rússa í Kúrsk, en Úkraína hóf óvænta innrás í Kúrsk þann 6. ágúst og hafa verið átök á svæðinu síðan.

„Kjarnorkuver af þessari gerð í svona mikilli nálægð við vígstöðvar er grafalvarlegt mál,“ sagði Grossi eftir að hafa heimsótt kjarnorkuverið, sem er um 50 kílómetra frá átökum.

Hann segir gífurlega óskynsamlegt að halda áfram átökum svona nálægt kjarnorkuverinu.

„Þetta gæti hljómað of einfalt eða skynsamlegt, en ekki ráðast á kjarnorkuver.“

Ítrekað varað við hættunni

Alþjóðakjarnorkumálastofnunin hefur frá innrás Rússa í Úkraínu í febrúar 2022 ítrekað varað við hættunni af átökum í kringum kjarnorkuver ríkjanna.

Stofnunin hefur hvatt bæði Úkraínumenn og Rússa að sýna aðhald á svæðinu til að forðast kjarnorkuslys sem gæti haft gífurlega alvarlegar afleiðingar.

Á fyrstu dögum átakanna hertóku rússneskar hersveitir Zaporizhzhia-kjarnorkuverið í suðurhluta Úkraínu og héldu einnig í stutta stund Tsjernobyl-verinu í norðri.

Grossi hefur verið í miklum samskiptum við rússnesk stjórnvöld og mun heimsækja Kænugarð í næstu viku til að tala við Volódimír Selenskí forseta Úkraínu, en Grossi hefur talað fyrir mikilvægi þess að halda samræðum við bæði löndin áfram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert