Maður á þrítugsaldri er látinn eftir skotárás í Botkyrka, sunnan við sænsku höfuðborgina Stokkhólm, í gærkvöldi og segir Mats Eriksson, upplýsingafulltrúi lögreglunnar á svæðinu, í samtali við sænska ríkisútvarpið SVT að málið sé rannsakað sem manndráp.
Lögreglu barst í gærkvöldi tilkynning um eitthvað sem tilkynnandi taldi skothvelli og um leið bifreið sem ekið hefði verið á tré í bæjarhlutanum Norsborg í Botkyrka.
„Okkur barst tilkynning um hugsanlega skothvelli og bílinn sem ekið hefði á tré. Á vettvangi hittist fyrir maður með það sem taldir voru áverkar eftir byssukúlur,“ segir Eriksson og bætir því við að vitni hafi séð menn yfirgefa vettvanginn. Ekkert sé þó unnt að fullyrða um hvort þar hafi verið um árásarmennina að ræða eða almenna vegfarendur.
Hinn særði var fluttur með forgangi á sjúkrahús þar sem hann var úrskurðaður látinn og ræðir lögregla nú við vitni að atburðinum og bauð snemma í grun að vígið tengdist væringjum afbrotagengja þeirra er troðið hafa illsakir í Stokkhólmi og nágrannabæjum og farið þar um með oddi og egg síðustu misseri eins og mbl.is hefur fjallað ítarlega um.
Í morgun hafði lögregla enn ekki haft hendur í hári nokkurs manns vegna gruns um ódáðina og starfaði tæknifólk hennar þá enn á vettvangi. Meðal þess sem rannsóknin hefur leitt í ljós er að á bifreiðinni reyndust skemmdir sem bentu til þess að sprenging hefði valdið.
Af þessum sökum var sprengjudeild lögreglu enn fremur kölluð til rannsóknarinnar og benda niðurstöður frumrannsóknar hennar til þess að handsprengja hafi sprungið nálægt ökutækinu.