Eins saknað eftir að skipi hvolfdi nálægt Noregi

Skjáskot af myndskeiði sem landhelgisgæslan deildi á samfélagsmiðlum.
Skjáskot af myndskeiði sem landhelgisgæslan deildi á samfélagsmiðlum. Skjáskot/Norska landhelgisgæslan

Eins er saknað eftir að skipi hvolfdi vestur af sveitarfélaginu Stad í Noregi, nærri Álasundi. Sex voru um borð og búið er að bjarga fimm manns.

Norska ríkisútvarpið (NRK) greinir frá.

Skipinu er lýst sem víkingaskipi í norskum fréttamiðlum og var það á leið til Noregs frá Færeyjum.

Neyðarkall barst frá skipinu klukkan 19.30 að staðartíma, eða klukkan 17.30 að íslenskum tíma, og í kjölfarið sendi landhelgisgæsla Noregs út þyrlur og varðskip í von um að koma skipverjunum til bjargar.

Skipverjarnir ekki Norðmenn

Er þyrlur flugu yfir skipinu var neyðarblysi skotið á loft af skipverjunum.

Á tíunda tímanum að norskum tíma var búið að bjarga fimm skipverjum. Enn er sjötti skipverjinn ófundinn. Að því er NRK greinir frá verður leit haldið áfram fram eftir nóttu en veðurskilyrði eru þó ekki góð.

Samkvæmt heimildum NRK þá voru skipverjarnir ekki Norðmenn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert