Flaggað í hálfa í Færeyjum vegna andláts ferðamanns

Ferðin var ætluð sem eins konar könnunarleiðangur um söguna.
Ferðin var ætluð sem eins konar könnunarleiðangur um söguna. Ljósmynd/Instagram/sail2north

Lík konu sem var um borð í færeyska bátnum Naddoddi sem hvolfdi í gær fannst rétt undan ströndum Noregs í morgun. 

Samkvæmt umfjöllun Kringvarpsins voru alls sex um borð en hinir fimm komust lífs af.

Hin látna hét Karla Dana og var 29 ára gömul, upprunalega frá Mexíkó en var búsett í Flórída.

Skjáskot af myndskeiði sem Landhelgisgæslan deildi á samfélagsmiðlum.
Skjáskot af myndskeiði sem Landhelgisgæslan deildi á samfélagsmiðlum. Skjáskot/Norska landhelgisgæslan

Frestuðu brottför vegna veðurs

Naddoddur, sem er eftirlíking af víkingaskipi, yfirgaf höfn í Tvøroyri síðdegis á laugardag og var áætlað að ferðin tæki 3-5 daga, en henni hafði verið frestað nokkrum sinnum vegna veðurs.

Ferðin var hluti af verkefninu The Viking Voyage eða Víkingaförinni og var ætluð sem eins konar könnunarleiðangur um söguna og virðingarvottur við víkinga fyrri alda sem lögðu ósjaldan í slíkar svaðilfarir.

Segir í upplýsingabæklingi verkefnisins að áhöfnin hafi búist við því að ferðin myndi reyna á bæði andlega og líkamlega.

Félagsskapurinn sem heldur utan um bátinn hefur dregið færeyska fánann í hálfa stöng vegna andláts ferðamannsins, að því er Kringvarpið greinir frá.

Formaður félagsins, Bergur Jacobssen, segir marga hafa komið við í félaginu til að minnast hinnar látnu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert