Kamala Harris forsetaframbjóðandi demókrata hyggst mæta á fimmtudag í sitt fyrsta viðtal frá því hún tilkynnti um framboð sitt fyrir rúmlega fimm vikum.
Mætir hún í viðtalið ásamt varaforsetaefni sínu, Tim Walz.
CNN greinir frá en það er einmitt fréttamaðurinn Dana Bash á CNN sem tekur viðtalið við frambjóðendurna.
Þrátt fyrir að fyrstu vikur framboðs hennar hafi gengið vel hefur hún hlotið gagnrýni fyrir að hafa ekki mætt í viðtöl né haldið blaðamannafundi.
Viðtalið á fimmtudaginn uppfyllir loforð sem hún gaf fyrr í mánuðinum um að mæta í viðtal fyrir lok mánaðar.
Á undanförnum vikum hefur hún svarað fáeinum spurningum frá blaðamönnum á leið sinni á viðburði eða upp í flugvél, en hún hefur ekki mætt í formlegt viðtal. Þó hefur hún spjallað í þrígang við áhrifavalda þar sem hún svarar spurningum þeirra.
Til stendur að Harris mæti Donald Trump forsetaframbjóðanda repúblikana í kappræðum 10. september á ABC News.