Segir ölvun og vímuefni í háloftunum vandamál

Hann segir vandamálið ná til allra áætlunarflugferða í Evrópu.
Hann segir vandamálið ná til allra áætlunarflugferða í Evrópu. AFP

Forstjóri flugfélagsins Ryanair segir slæma framkomu farþega sökum ölvunar og vímuefna færast í aukana og að framkoma farþegana sé vandamál sem nái til allra áætlunarflugferða innan Evrópu. 

Michael O'Leary, forstjóri Ryanair, hefur hvatt forsvarsmenn flugvalla til að takmarka sölu áfengis til þess að sporna gegn vandamálinu. 

Duftið líka vandamál

O'Leary segir vandann sérstaklega áberandi á sumrin þegar fólk nýtir sér fríið og í áætlunarflugum til staða sem einkennast af miklu skemmtanalífi eins og Ibiza á Spáni. 

Hann segir þó áfengi ekki einungis skýra vandann heldur einnig væri fólk í auknum mæli að innbyrða einhvers konar duft, það er að segja fíkniefni. 

„Í gamla daga ef fólk drakk of mikið myndi það á endanum lognast út af,“ segir hann en að með því að blanda drykkjunni við fíkniefnaneyslu væri framkoma fólks orðinn erfiðari og ágengari.

Banna vatnflöskur á leiðinni um borð

Hann segir vandamálið ná til allra áætlunarfluga í Evrópu en lagði sérstaka áherslu á áætlunarflug frá borgum eins Liverpool, Manchester, Glasgow og Edinborg í Bretlandi. 

Áður hafi flugfélagið leyft farþegum að fara um borð í vélina með vatnsflösku.

„Þegar við vorum ung og saklaus leyfðum við fólki að taka vatnsflöskur með sér um borð, án þess að gera okkur grein fyrir því að flaskan væri full af vodka.“

Nú er leitað í töskum farþega við brottfarahlið á ákveðnum flugvöllum og bannað að koma með vatnsflöskur í vélina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert