Slys á Jótlandi: Tveir ungir drengir látnir

Lögreglan á Jótlandi
Lögreglan á Jótlandi Ljósmynd/Lögreglan á Jótlandi

Tveir þýskir drengir, níu og tólf ára, eru látnir eftir að þeir grófust í sandi í fjöru á Jótlandi í Danmörku á sunnudaginn.

TV 2 greinir frá þessu en lögreglan á Mið-og Vestur-Jótlandi greindi frá því í dag að drengirnir hefðu látist í gærkvöld.

Drengirnir voru með fjölskyldum sínum á Jótlandi. Þeir voru við leik í fjörunni og voru að grafa göng við flæðamálið þegar þau lokuðust skyndilega. Fólk sem var á ströndinni hóf þegar leit að drengjunum og því tókst að grafa drengina upp 40 mínútum síðar. 

Hvetja fólk til að fara varlega

Þeir voru fluttir með þyrlu á nærliggjandi sjúkrahús og að sögn lögreglunnar var ástandi þeirra þá lýst sem alvarlegu.

„Frumrannsóknir okkar benda til þess að þeir hafi stundað einhvers konar uppgröft og ef til vill grafið helli inn í sandöldurnar. Því miður hefur þetta leitt til hruns í hellinum sem þeir sátu í og ​​þeir voru þaktir sandi,“ sagði Henrik Jensen,  lögreglustjóri og yfirmaður neyðarþjónustu í Thisted.

Í kjölfar atviksins hafa dönsk yfirvöld hvatt fólk til að sýna aðgát í kringum sandöldusvæði á vesturströndinni þar sem mikil rigning undanfarið hefur gert sandöldurnar óstöðugar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert