Yfirvöld í Sviss hafa hafnað úrskurði Mannréttindadómstóls Evrópu sem segir landið ekki hafa gert nóg til þess að sporna gegn loftslagsbreytingum.
Dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að Sviss hefði brotið gegn áttundu grein mannréttindasáttmála Evrópu.
Sviss er fyrsta landið til þess til að hljóta sakfellingu frá alþjóðadómstóli fyrir aðgerðarleysi í loftslagsaðgerðum.
Málið á rætur að rekja til samtaka 2.500 eldri kvenna, 73 ára að meðaltali, í Sviss sem láta sig loftslagaðgerðir varða. Samtökin skutu málinu til dómstólsins.
Samtökin segja yfirvöld í Sviss hafa brotið á mannréttindum þeirra með því að vinna ekki nægilega að loftslagsaðgerðum og að loftslagsbreytingar hefðu neikvæð áhrif á líf og heilsu kvennanna.
Eftir úrskurðinn fór stærsti flokkur Sviss, Flokkur svissneska fólksins, fram á að Sviss segði sig frá Evrópuráði.
Í kjölfarið sögðu yfirvöld í landinu sig skuldbundinn áframhaldandi setu í Evrópuráði, en höfnuðu úrskurði dómstólsins.
Sakfellingunni var hafnað á þeim forsendum að yfirvöld í Sviss telji sig þegar uppfylla allar alþjóðlegar skuldbindingar í loftslagsaðgerðum og að verið væri að teygja ætlunarverk sáttmálans.