Swifties safna 20 milljónum fyrir Harris

Aðdáendur Taylor Swift safna 20 milljónum fyrir Kamalu Harris, en …
Aðdáendur Taylor Swift safna 20 milljónum fyrir Kamalu Harris, en Swift sjálf er þó ekki tengd verkefninu. AFP/Julien De Rosa

Aðdáendur heimsfrægu söngkonunnar Taylor Swift, sem kalla sig Swifties, hafa safnað yfir 140 þúsund dollurum, eða rúmlega 20 milljónum íslenskra króna, til að styðja við framboð Kamölu Harris í forsetakosningunum í Bandaríkjunum. 

Hópurinn kallar sig „Swifties for Harris“ og á rætur sínar að rekja til samfélagsmiðlahreyfingar sem hófst eftir að Joe Biden Bandaríkjaforseti dró framboð sitt til baka. 

Hreyfingin hefur vaxið hratt og telur nú yfir 72 þúsund notendur á X og tæplega 50 þúsund á Instagram.

Taylor Swift sjálf er þó ekki persónulega tengd hópnum.

27 þúsund þátttakendur

Hópurinn hélt fjáröflun á fjarfundi sem 27 þúsund manns lögðu lið. Markmiðið með fundinum var að breyta „Swiftie kraftinum í pólitískan kraft“, eins og pólitískur framkvæmdastjóri hópsins orðaði það.

Á fundinum komu fram stjörnur á borð við Carole King, ásamt öldungadeildarþingmönnunum Elizabeth Warren og Kirsten Gillibrand.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert