Þurfa að gera hlé á mannúðarstörfum

Mikil neyð ríkir á Gasa.
Mikil neyð ríkir á Gasa. AFP

Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna greindi frá því í dag að hlé yrði gert á ferðum starfsmanna stofnunarinnar inn á Gasa þar til annað verður tilkynnt eftir að ökutæki á þeirra vegum varð fyrir skothríð nálægt ísraelskri eftirlitsstöð í gærkvöldi.

Enginn særðist í skothríðinni. 

CNN greinir frá.

„Þrátt fyrir að hafa verið greinilega merkt og fengið margar heimildir frá ísraelskum yfirvöldum til að nálgast varð ökutækið fyrir skothríð þegar það var á leið í átt að eftirlitsstöð ísraelska varnarliðsins,“ segir í tilkynningu frá stofnuninni.

Spilar lykilhlutverk í mannúðarstarfi

Cindy McCain, framkvæmdastjóri stofnunarinnar, sagði atvikið óásættanlegt. Það væri eitt af mörgum atvikum þar sem lífi starfsmanna var ógnað á Gasa.

Þá segir hún starfsmenn stofnunarinnar yfirleitt samræma ferðir sínar við ísraelskar hersveitir til að geta verið tiltölulega öryggir á ferðum sínum en nú sé það kerfi að bregðast.

Matvælastofnunin spilar lykilhlutverk í mannúðarstarfi Sameinuðu þjóðanna á Gasa þar sem hún dreifir matvælum til íbúa sem búa á svæðum sem Ísraelsher hefur lagt í rúst og þar sem hungursneyð hefur verið að breiðast út.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert