Aftökur, pyntingar og limlestingar á líkum

HRW segir báðar fylkingar í átökunum í Súdan sekar um …
HRW segir báðar fylkingar í átökunum í Súdan sekar um stríðsglæpi. AFP

Human Rights Watch (HRW) segir báðar fylkingar í átökunum sem geisað hafa í Súdan undanfarna 16 mánuði, hafa gerst seka um stríðsglæpi.

Sögðu mannúðarsamtökin stríðsglæpina marga hverja skjalfesta á samfélagsmiðlum og þar megi m.a. sjá aftökur, pyntingar og limlestingar á líkum. 

Greining þeirra á samfélagsmiðlum hafi leitt í ljós pyntingar á 18 manns og aftökur á minnst 40. Níu af 20 myndskeiðum hafi sýnt limlestingar á minnst átta líkum.

„Í öllum tilvikum virðast fangarnir vera óvopnaðir, eru ekki ógnandi og eru margir hverjir í fjötrum.“

Stríðandi fylkingar ónæmar fyrir ofbeldinu

Síðan í apríl 2023 hefur súdanski herinn undir stjórn Abdel Fattah al-Burhan barist grimmt við uppreisnarhersveitina Rapid Support Forces (RSF) og hafa átökin leitt til dauða tugi þúsunda og neytt milljónir manns til að flýja heimili sín. 

„Stríðandi fylkingarnar eru orðnar svo ónæmar fyrir ofbeldi að þær hafa ítrekað tekið upp myndbönd þar sem þeir taka fanga af lífi, pynta þá og afmennska og limlesta lík,“ segir Mohammed Osman, rannsakandi HRW á málefnum í Súdan. 

Mælist Osman til þess að glæpirnir verði rannsakaðir sem stríðsglæpir og að ábyrgðaraðilar verði dregnir til saka. Hvetja samtökin báðar fylkingar til að láta af slíku ofbeldi og hefja rannsókn á atvikunum.

Sömuleiðis hvetja þau Sameinuðu þjóðirnar til að hefja rannsókn á glæpunum, en aðstoðarframkvæmdastjóri SÞ, Amina Mohammed, er nýkomin til borgarinnar Port Sudan, til að stuðla að friði í landinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert