Lögreglan eykur viðveru í grunnskólum

Unnar segir mikilvægt að samfélagslöggur eigi í samtali við börn …
Unnar segir mikilvægt að samfélagslöggur eigi í samtali við börn og ungmenni til að sporna við auknum vopnaburði. Eggert Jóhannesson

„Þau gera sér rosa oft ekki grein fyrir því að þetta sé ólöglegt,“ segir Unnar Þór Bjarnason samfélagslögreglumaður um vopnaburð barna og ungmenna.

Kveðst Unnar ekki vita hvað hafi farið úrskeiðis á síðustu árum sem valdi því að vopnaburður meðal ungmenna hafi aukist til muna en fullvíst sé að þeirri þróun þurfi að snúa við.

Unnar segir mörg börn ekki vita að vopnaburður sé ólöglegur.
Unnar segir mörg börn ekki vita að vopnaburður sé ólöglegur. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Vilja fræða en ekki hræða“

Lögreglan hafi fengið aukna fjárveitingu inn í samfélagslöggæslu og geti aukið við sig um tvö stöðugildi og þar af leiðandi viðveru í grunnskólum. Samfélagslöggurnar, eins og þær eru gjarnan kallaðar fari að jafnaði vikulega í grunnskóla til að ræða við mismunandi bekki.

„Við viljum fræða en ekki hræða,“ segir Unnar inntur eftir því hvernig slíkt forvarnarstarf líti út. Samfélagslöggæslan hafi hitt kollega sína í Írlandi, þar sem einnig var holskefla af hnífamálum fyrir nokkrum árum.

Þeir hafi sagt mikilvægt að fara varlega í umræðunni enda vilji maður heldur ekki ala á ótta sem geti leitt til öfugra áhrifa, þar sem börn byrji að ganga með vopn af því þau óttist að allir aðrir séu með vopn.“

Samfélagslöggur.
Samfélagslöggur. Ljósmynd/Aðsend

„Hvað ertu búin að drepa marga?“

Fyrst og fremst sé lögreglan að fara í skóla til að eiga í samtölum við börn og ungmenni um málefni eins og ofbeldi og vopnaburð og hvert þau geti leitað. Oft viti krakkarnir ekki alveg hvað störf lögreglu gangi út á.

„Þegar ég er að fara í fyrsta skipti þá er ég nú yfirleitt bara að kynna mig,“ segir Unnar og segir það einnig mikilvægan lið í starfinu að börnin þekki lögregluna og starf hennar. 

„Hvað ertu búin að drepa marga? Hefurðu skotið einhvern? Hvar er byssan þín?“ séu spurningar sem lögreglumennirnir fái oft í fyrstu heimsókn. 

„Þannig að ég er oft fyrsta hálftímann að útskýra að ég sé ekki með byssu,“ segir Unnar.

Verkefnið hafi aftur á móti verið í gangi um nokkurra ára skeið núna og því hafi sumir bekkir fengið um eina heimsókn á ári í nokkur ár og því sé hægt að fara í dýpri samtöl við krakkana um t.d. vopnaburð og alvarleika þess.

„Minn draumur er að geta hitt hvert barn einu sinni á ári frá leikskóla upp í menntaskóla.“

Vopnin eigi ekki bara að fara í skúffu skólastjórans

Sömuleiðis vilji þau stuðla að samstarfi við skólana og hvetja alla kennara og stjórnendur til að vera í samtali við lögreglu ef tilfelli um vopnaburð komi upp meðal nemenda. 

„Ég tala fyrir því að það eigi að láta vita, ekki bara að þetta fari ofan í skúffu hjá skólastjóranum. Þó að við komum ekki með bláu ljósin á þá getum við tekið spjallið með foreldrunum og barninu.“ 

Hann segir lögregluna sömuleiðis í afar góðu samstarfi við Flotann, flakkandi félagsmiðstöð, þar sem félagsmiðstöðvarstarfsfólk skiptist á að fara á staði þar sem börn og ungmenni sem ekki sæki hefðbundið félagsmiðstöðvarstarf haldi oft til. 

„Þau eru með ótrúlega góða innsýn í allt það sem kemur ekki inn á borð til okkar. Þannig að við erum að styrkja svoleiðis samvinnu með þessu flotta fólki sem er að vinna með krökkunum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka