Sér ekki eftir árásinni á Ingunni

Nemandinn var metinn sakhæfur í málinu.
Nemandinn var metinn sakhæfur í málinu. Ljósmynd/Úr einkasafni

Nemandi sem veittist að Ingunni Björnsdóttur, dósenti við Lyfjafræðistofnun Óslóarháskóla, sagðist iðrast einskis fyrir dómi. Hann kvaðst ekki hafa ætlað að ráða Ingunni af dögum heldur ætlað að koma henni úr umferð í nokkra mánuði.

Nemandinn var ákærður fyrir tilraun til manndráps í maí og stendur aðalmeðferð nú yfir í málinu. Honum gefið að sök að hafa skorið í háls Ingunnar og veitt henni að auki fjölda stungusára. Þá tek­ur ákær­an einnig til árás­ar á samkennara henn­ar, sem talið er að hafi bjargað lífi hennar. 

Nemandinn féll á prófi í annað skipti í áfanga Ingunnar og óskaði hann í kjölfarið eftir fundi til að fá útskýringar á einkunninni sinni. 

Óþægilegur fundur

Fyrir dómi lýsti Ingunn því að henni hefði þótt fundurinn afar óþægilegur. Nemandinn neitaði að trúa því að hann hefði allið á prófinu og lýsti Ingunn því að hann hefði ekki skilið þær útskýringar sem hann fékk.

Fundurinn átti að standa yfir í 30 mínútur og að þeim tíma loknum sagði hún nemandanum að fundinum væri lokið. 

„Ég stend upp og hann líka. Hann lítur á mig og segir eitthvað á þann veg að þetta sé allt mér að kenna og að ég sé ekki hæf til að sinna starfi mínu. Allt í einu er hann kominn með hníf í höndina og hann byrjar hér,“ sagði Ingunn og benti á hálsinn á sér. 

Ingunn hlaut 19 stungusár í árásinni, að því er segir í frétt norska miðilsins Khrono.

Tók tvo hnífa með

Nemandinn lýsti því fyrir dómi að hann hefði byrjað á að stinga í háls Ingunnar en að hann hefði fljótlega hætt við og taldi það „ganga of langt“. 

Hann sagðist hafa tekið með sér tvo hnífa á fundinn en að hann hefði ekki ætlað sér að nota þá. Kvaðst hann hafa tekið þá með vegna þess að tilhugsunin um að hann gæti notað hnífana veitti honum öryggi. 

Nemandinn lýsti því að á meðan fundinum stóð hefði pirringur hans í garð Ingunnar farið stigvaxandi. Undir lok fundarins náði hann svo hámarki þegar hún tilkynnti nemandanum að hún myndi einnig kenna áfangann næsta skólaár og hóf hann þá atlögu sína. 

Iðrast einskis

Saksóknari í málinu spurði nemandann hvað honum fannst um árásina sem hann gerði á Ingunni. 

„Þetta var mikið áfall fyrir mig að gera þetta. Mikið áfall.“

Þegar saksóknarinn ítrekaði spurninguna sagði nemandinn að þjáning þeirra hefði ekki verið meiri en hans eigin. 

Er einhver iðrun?

„Ekki gagnvart Ingunni, nei,“ sagði nemandinn og bætti við að upphaflega hefði hann verið með samviskubit gagnvart samkennaranum en eftir að hann heyrði að áverkar hennar voru minniháttar hefði það horfið. 

Metinn sakhæfur

Ingunn lýsti því fyrir dómi að hún hefði gengst undir nokkrar aðgerðir eftir árásina. Þá átti hún erfitt andlega, átti erfitt með svefn og einbeitingu. Hún lýsti því að hún gat ekki borðað kjöt fyrst eftir árásina og á hún sömuleiðis mjög erfitt með að nota hnífa. 

Í frétt Khrono um málið segir að réttarsálfræðingur í málinu hefði metið það sem svo að nemandinn væri ekki veikur á geði er hann framdi verknaðinn og er hann því metinn sakhæfur.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert