Sonur frægs leikara hlaut lífstíðardóm

Spænski leikarinn Rodolfo Sancho yfirgefur dómsalinn eftir að sonur hans …
Spænski leikarinn Rodolfo Sancho yfirgefur dómsalinn eftir að sonur hans var dæmdur í lífstíðarfangelsi. AFP/Lillian Suwanrumpha

Taílenskur dómstóll hefur dæmt son frægs spænsks leikara í lífstíðarfangelsi fyrir morðið á kólumbískum lýtalækni á eyjunni Koh Phangan.

Daniel Sancho Bronchalo, þrítugur kokkur, var fundinn sekur um að hafa myrt Edwin Arrieta Arteaga á Koh Phangan, sem er vinsæll ferðamannastaður, á síðasta ári.

Málið hefur vakið mikla athygli á Spáni vegna þess að faðir hins seka, Rodolfo Sancho, er þekktur leikari þar í landi. Hópur spænskra blaðamanna flaug til Taílands til að vera viðstaddur réttarhöldin.

Fjölmiðlafólk fyrir utan dómshúsið.
Fjölmiðlafólk fyrir utan dómshúsið. AFP/Lillian Suwanrumpha

Í yfirlýsingu sagði dómstóll á eyjunni Koh Samui að Sancho hefði hlotið lífstíðardóm og verið dæmdur til að greiða fjölskyldu Arrieta rúmar 18 milljónir króna í bætur.

Í réttarhöldunum kom fram að Sancho hefði bútað niður lík Arrieta og komið líkamspörtunum fyrir í plastpokum. Að því loknu dreifði hann þeim víðs vegar um Koh Phangan.

Lögmenn Daniel Sancho Bronchalo ræða við blaðamenn í morgun.
Lögmenn Daniel Sancho Bronchalo ræða við blaðamenn í morgun. AFP/Lillian Suwanrumpha

Sancho sagðist hafa drepið Arrieta, 44 ára, í sjálfsvörn eftir að Arrieta hefði reynt að nauðga honum.  Mennirnir höfðu ákveðið að hittast á eyjunni eftir að hafa kynnst á netinu. 

Dauðarefsing er við lýði í Taílandi við ákveðnum glæpum, þar á meðal morði af yfirlögðu ráði, en aftökur eru sjaldan framkvæmdar. Síðast gerðist það árið 2018. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert