Viðtalið einn af fyrstu prófsteinum Harris

Harris mætir í viðtalið ásamt varaforsetaefni sínu, Tim Walz.
Harris mætir í viðtalið ásamt varaforsetaefni sínu, Tim Walz. AFP(Saul Loeb

Búist er við því að nokkrar milljónir manna muni fylgjast með fyrsta viðtali Kamölu Harris, forsetaframbjóðenda demókrata, frá því hún bauð sig fram á CNN í kvöld. Sumir telja þetta vera einn af hennar fyrstu raunverulegu prófsteinum í kosningabaráttunni.

Klukkan eitt í nótt að íslenskum tíma mun CNN sjónvarpa viðtal sitt við Harris og varaforsetaefni hennar, Tim Walz.

Harris hefur ekki mætt í viðtal né haldið blaðamannafund frá því að hún fór í framboð og því hafa margir beðið eftir því að sjá hana svara spurningum um stefnumál sín, reynslu og fleira.

Hefð að mæta með varaforsetaefni í viðtal

Þó viðtalið verði ekki í beinni útsendingu þá verða taugarnar vafalaust þandar. Harris hefur verið þekkt fyrir það að standa sig misvel í viðtölum og á það til að orða suma hluti undarlega.

Repúblikanar saka hana um að vera með Tim Walz með sér við hlið til þess að fá auka stuðning í viðtalinu og segja hana forðast viðtöl til þess að þurfa ekki að ræða stefnumál sín.

Kosningateymi Harris hefur bent á það að það sé ekki óalgengt að forsetaframbjóðendur mæti með varaforsetaefni sínu í viðtal eftir landsfund, eins og demókratar héldu í síðustu viku. Það sé í raun hefð sem nái allt að 20 ár aftur í tímann.

Áfram allt í járnum

Frá því að Harris bauð sig fram þann 21. júlí, daginn sem Joe Biden Bandaríkjaforseti dró framboð sitt til baka, hefur hún verið á miklu flugi í skoðanakönnunum.

Enn sem stendur er þó allt í járnum í skoðanakönnunum á milli hennar og Donalds Trumps, forsetaframbjóðanda repúblikana. 

Samkvæmt RealClear Politics er hún með innan við 2% forskot á Trump og í mikilvægustu sveifluríkjunum er munurinn á milli hennar og Trumps í flestum tilvikum innan við prósentustig. 

Landsfundur demókrata var haldinn í síðustu viku og þótti hann takast vel til. Algengt er að forsetaframbjóðendur bæti fylgi sitt tímabundið í kjölfar landsfunda en hingað til er ekki að sjá að Harris hafi bætt fylgið að neinu marki síðustu vikuna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert