Ályktun um ákvörðun Bjarna hafi ekki reynt á samstarfið

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, formaður Vinstri grænna.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, formaður Vinstri grænna. mbl.is/Kristinn Magnússon

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, starfandi formaður Vinstri grænna kveðst ekki hafa gert upp hug sinn um hvort hann hyggist bjóða sig fram til formanns á landsfundi flokksins eftir rúman mánuð.

Spurður hvort hver fari ekki að vera síðastur að bjóða sig fram hlær Guðmundur og svarar neitandi. 

„Nei það er satt best að segja hægt að bjóða sig fram alveg fram að síðustu stundu. Við erum bara á fullu að undirbúa landsfundinn og málefnavinnan í góðum gangi,“ segir Guðmundur. 

Hann segir flokkinn nú einbeita sér að því að skerpa stefnu sína og það verði því að koma í ljós á næstunni hverjir gefi kost á sér sem formannsefni. Sjálfur hafi hann ekki tekið ákvörðun enn sem komið er.

„Allt upp á við!“

Nú jókst fylgið ykkar pínuponsulítið í Maskínu könnuninni hvernig horfir það við þér?

„Allt upp á við! Nei ég er auðvitað ánægður að sjá að þetta þokast upp á við en við eigum talsvert í land til að ná því sem okkur finnst viðunandi en allt held ég að þetta hefjist með meiri vinnu og að setja fram okkar áherslur inn í komandi vetur og síðan kosningar,“ segir Guðmundur. 

Hann telji afar mikilvægt að flokkurinn verði áfram öflugur málsvari félagslegra áherslna á borð við umhverfis- og náttúruvernd, kvenfrelsi og réttindum hinseginfólks. 

„Það höfum við verið, erum og viljum halda áfram að vera.“

Grasrótin að segja sína skoðun

Spurður hvort flokkurinn hyggist stíga fastar til jarðar í þeim efnum kveðst Guðmundur telja að VG hafi gefið vísbendingar um hvað framtíðarstefna flokksins verði á flokkráðsfundi sínum um miðjan ágúst.

En á þessum fundi fordæmdi flokksráð ákvörðun Bjarna Bene­dikts­son­ar frá því í janú­ar þegar hann frysti greiðslur til UN­RWA, Palestínuflótta­mannaaðstoðar Sam­einuðu þjóðanna. Hefur það ekki reynt á stjórnarsamstarfið? 

„Nei mér finnst það nú ekki hafa reynt á stjórnarsamstarfið þarna voru bara okkar félagar og grasrótin að segja sína skoðun á þessu tiltekna dæmi á sínum tíma. En ég bendi líka á það að greiðslurnar skiluðu sér og þær voru auknar sem er jákvæð niðurstaða í þessu máli.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert