Sagði Bandaríkin tilbúin að snúa baki við Trump

Harris og Trump á samsettri mynd.
Harris og Trump á samsettri mynd. AFP/Brendan Smialowski/Andrew Caballero-Reynolds

Kamala Harris, forsetaframbjóðandi demókrata, sagði Bandaríkjamenn vera tilbúna til að snúa baki sínu við Donald Trump, frambjóðanda repúblikana, í viðtali við CNN.

Þetta var fyrsta viðtalið sem hún mætti í síðan hún tilkynnti um framboð sitt fyrir rúmlega fimm vikum.

Harris sagðist ætla að taka innflytjendamál föstum tökum. Einnig kvaðst hún ætla að styðja bergbrot fyrir olíu og gas (e. fracking).

„Ég er rétta manneskjan til að sinna þessu starfi,“ sagði Harris, sem mætti í viðtalið ásamt varaforsetaefni sínu Tim Walz.

Kamala Harris talar í síma við dóttur stuðningsmanns síns í …
Kamala Harris talar í síma við dóttur stuðningsmanns síns í Savannah í ríkinu Georgíu í gær. AFP/Saul Loeb

Svaraði gagnrýni 

Harris hafnaði gagnrýni um að hún hefði skipt um skoðun þegar kemur að bergbroti og afstöðu sína til ólöglegra innflytjenda frá Mexíkó.

„Sem forseti mun ég ekki banna bergbrot,“ sagði hún. Þessi umdeilda starfsemi fer m.a. fram í ríkinu Pennsylvaníu, þar sem mikið jarðefnaeldsneyti er að finna en það er líka eitt mikilvægasta barátturíkið í forsetakosningunum.

Spurð út í gagnrýni um að hún hefði verið of lin þegar kemur að ólöglegum innflytjendum sagðist hún sem forseti ætla að styðja harða löggjöf í málaflokknum.

Kamala Harris á kosningafundi í Georgíu.
Kamala Harris á kosningafundi í Georgíu. AFP/Sauel Loeb

Repúblikani í ríkisstjórn

Hún sagði Trump hafa „gert lítið úr því sem einkennir Bandaríkjamenn og styrk okkar og hann hefur nú þegar sundrað þjóð okkar“.

„Ég tel að fólk sé tilbúið til að snúa bakinu við þessu,“ sagði hún. „Fólk er tilbúið að feta nýja leið fram á veginn.“

Harris kvaðst einnig ætla að velja repúblikana í ríkisstjórn sína ef hún ber sigur úr býtum í kosningunum í nóvember.

Trump setti inn færslu á samfélagsmiðla þar sem hann skrifaði einfaldlega „Leiðinlegt!!!“ um viðtalið og bætti við að Harris hefði ekki litið út fyrir að vera leiðtogi. Einnig væri hún dugleg við að skipta um skoðun. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert