Bólusetja 640 þúsund börn

Heilbrigðisstarfsmaður bólusetur ungan palestínskan dreng.
Heilbrigðisstarfsmaður bólusetur ungan palestínskan dreng. AFP

Fyrsti dagur bólusetningarherferðar Sameinuðu þjóðanna (SÞ) við lömunarveiki á Gasasvæðinu hófst vel að sögn talsmanna stofnunarinnar. 

BBC greinir frá því að herferðin miðar að því að bólusetja 640 þúsund börn eftir að tíu mánaða gamalt barn lamaðist að hluta til eftir að hafa greinst með veikina.

Er það fyrsta tilfelli lömunarveiki á Gasasvæðinu í 25 ár en minnst 90% þurfa að vera bólusett til að ná hjarðónæmi. 

Börn eru um helmingur íbúa á Gasasvæðinu. 90% þurfa að …
Börn eru um helmingur íbúa á Gasasvæðinu. 90% þurfa að vera bólusett til að ná hjarðónæmi. AFP

Mannúðarhlé frá klukkan 6-15 í þrjá daga

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin komst að samkomulagi við Ísrael á fimmtudaginn um takmörkuð mannúðarhlé til að geta framfylgt áætlun um bólusetningar barna undir 10 ára. 

Hvert „mannúðarhlé“ mun vara frá 6-15 næstu þrjá daga, með möguleika á að bæta við aukadegi ef þörf er á.

Starfsmaður UNICEF segir brýnt að mannúðarhlé verði virt þar sem ómögulegt sé að bólusetja börnin í miðjum átökunum. 

Gátu Palestínumenn í dag farið með börn sín á þrjár heilsugæslustöðvar miðsvæðis á Gasa en um er að ræða fyrsta áfanga herferðarinnar, sem mun síðar teygja sig til norðurs og suðurs. 

Tæplega 2.000 börn voru bólusett á Deir el-Balah heilsugæslustöðinni einni í dag að sögn talskonu SÞ Louise Watergate.

10 mánaða gamalt barn greindist með lömunarveiki nýlega en það …
10 mánaða gamalt barn greindist með lömunarveiki nýlega en það er fyrsta tilfellið í 25 ár. AFP

Smitast í gegnum saur, vatn og matvæli

Lömunarveiki eða mænusótt er alvarlegur og gríðarlega smitandi sjúkdómur sem herjar hvað verst á börn undir fimm ára aldri. 

Veiran smitast einna helst í gegnum snertingu við saur sýkts einstaklings, en getur einnig smitast í gegnum mengað vatn eða matvæli. Flestir finna fyrir litlum eða engum einkennum.

Mannúðarsamtök á svæðinu segja vírusinn hafi komið upp aftur á svæðinu í kjölfar stríðsátaka á svæðinu.

Átökin hafi ekki einungis truflað reglubundnar bólusetningar barna, sem eru um helmingur þjóðarinnar, heldur hafi þau sömuleiðis valdið miklu tjóni á vatns- og hreinlætiskerfi á svæðinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka