Netanjahú heitir því að „jafna metin“

Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels.
Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels. AFP/Nama Grynbaum

Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, sór að „jafna metin“ við Hamas eftir að lík sex gísla fundust í neðanjarðargöngum á Gasa. 

„Þeir sem drepa gísla vilja ekki samkomulag“ sagði í yfirlýsingu Netanjahú og átti þar við vopnahlé.

„Við munum elta ykkur, við munum ná ykkur og við munum jafna metin.“

Þá sakaði hann Hamas um að bera ábyrgð á skotárás í morgun á Vesturbakkanum sem leiddi til dauða þriggja lögreglumanna. 

Leit hafin að árásarmönnunum

„Við erum að berjast á öllum vígstöðum við grimman óvin sem vill myrða okkur öll. Bara í morgun myrti hann þrjá lögreglumenn í Hebron.“

„Sú staðreynd að Hamas heldur áfram að fremja voðaverk líkt og þau sem voru framin 7. október skuldbindur okkur til þess að gera allt í okkar valdi til þess að koma í veg fyrir að slíkt geti gerst,“ sagði í yfirlýsingu forsætisráðherrans. 

Hamas hefur ekki lýst yfir ábyrgð á skotárásinni á Vesturbakkanum í morgun en sagði hana hafa verið „hetjulega aðgerð andspyrnunnar“.

Í yfirlýsingu frá Ísraelsher sagði að árásarmenn hefðu hafið skothríð á bifreið sem hafi verið við eftirlitsstöð. Þá sagði að leit væri hafin að „hryðjuverkamönnunum“. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka