Sex gíslar fundust látnir í Rafah

Almog Sarusi, Alexander Lobanov, Carmel Gat, Ori Danino, Eden Yerushalmi …
Almog Sarusi, Alexander Lobanov, Carmel Gat, Ori Danino, Eden Yerushalmi og Hersh Goldberg-Polin fundust látin. AFP

Ísraelsher greindi frá því í dag að lík sex gísla hefðu fundist í göngum í suðurhluta Gasa. 

Líkin voru flutt úr „neðanjarðargöngum á Rafah-svæðinu“ til Ísraels í gær. Þar voru formlega borin kennsl á þau. 

Hin látnu eru Carmel Gat, Eden Yerushalmi, Hersh Goldberg-Polin, Alexander Lobanov, Almog Sarusi og Ori Danino, fjórir karlmenn og tvær konur. Þau voru öll tekin í gíslíngu í hryðjuverkaárás Hamas hinn 7. október í suðurhluta Ísraels. 

Lobanov var með ísraelskan og rússneskan ríkisborgararétt og Goldberg-Polin var með ísraelskan og bandarískan ríkisborgararétt.

Gat var tekinn af samyrkjubúi en hin fimm, sem voru á aldrinum 23 til 32 ára, voru tekin í gíslingu á tónlistarhátíð nærri landamærum Gasa.

Þau voru á meðal þess 251 einstaklings sem var tekinn í gíslingu 7. október, 97 þeirra eru enn í haldi á Gasa. Ísraelsher telur 33 þeirra vera látin. 

Segja gíslana hafa verið myrta stuttu áður

Yoav Gallant varnarmálaráðherra Ísraels sagði gíslana hafa verið á lífi er þau voru tekin í gíslingu. 

„Þau voru í gíslingu Hamas og myrt með köldu blóði,“ sagði í yfirlýsingu Gallant. 

Daniel Hagari, talsmaður ísraelska hersins, sagði að gíslarnir hefðu verið myrtir af hryðjuverkamönnum Hamas stuttu áður en Ísraelsher komst að þeim. 

„Hjarta allrar þjóðarinnar er í molum,“ sagði í yfirlýsingu Isaacs Herzogs Ísraelsforseta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert