Skipverjinn sem var á vakt er lúxussnekkjan Bayesian sökk skammt frá Sikiley þann 19. ágúst ágúst vakti skipstjórann áður en snekkjan sökk.
Þessu greina ítalskir fjölmiðlar frá en sjö létu lífið er snekkjan sökk, þar á meðal breski auðjöfurinn Mike Lynch og dóttir hans. Ítölsk yfirvöld rannsaka málið sem mögulegt manndráp.
„Ég fylgdist með veðuraðstæðum allt kvöldið,“ sagði skipverjinn Matthew Griffiths og bætti við að hann hefði líka fylgst með vindhraða.
„Ég vakti skipstjórann strax sem tók þá við stjórn. Hann gaf skipun um að vekja hina.“
James Cutfield skipstjóri er 51 árs gamall Nýsjálendingur. Hann var einn þeirra 15 sem lifðu atvikið af. Níu af þeim tíu sem voru í áhöfn lifðu af, og sex af tólf farþegum lifðu af.
Rannsókn yfirvalda hefur beinst að Cutfield, vélamanninum Tim Parker Eaton, sem stjórnaði vélarúminu þessa nótt, og Griffiths sem var á vakt.
Cutfield staðfesti að hann hefði verið vakinn og gaf út skipunina að vekja hina þar sem honum „leist ekki á aðstæður“.
Áhöfnin greindi frá því að snekkjan hefði síðan skyndilega hallast og nokkrir skipverjar duttu fyrir borð.
„Okkur tókst að koma okkur aftur um borð og reyndum að búa til keðju til þess að bjarga þeim sem komust upp á þilfar,“ sagði Griffiths.
Hann bætti við að skipstjórinn hefði verið fremstur í keðjunni og hjálpaði öllum.
Lynch, sem var 59 ára gamall, hafði boðið vinum og ættingjum að koma saman til að fagna því að hann hefði verið sýknaður í umfangsmiklu fjársvikamáli í Bandaríkjunum.
Snekkjan, sem er 56 metra löng, sökk þegar að því er virðist lítill hvirfilbylur gekk yfir þar sem skipið lá við akkeri skammt frá Porticello, sem er ekki langt frá borginni Palermo.