Flugu einkaþotu Maduro til Flórída

Nicolas Maduro.
Nicolas Maduro. Federico PARRA / AFP

Ríkisstjórn Venesúela segir handlagningu bandarískra stjórnvalda á flugvél Nicolas Maduros forseta landsins „þjófnað“.

Stjórnvöld í Bandaríkjunum lögðu í dag hald á einkaflugvél Maduros sem þá var staðsett í Dóminíska lýðveldinu og flugu henni til Flórída. 

Ástæðan sem stjórnvöld gáfu upp var að flugvélin hefði verið „keypt ólöglega“ og bryti í bága við viðskiptaþvinganir gegn Venesúela.

Um glæpastarfsemi að ræða

„Dómsmálaráðuneytið hefur lagt hald á flugvél sem talið er að hafi verið keypt ólöglega fyrir 13 milljónir Bandaríkjadala í gegnum skúffufyrirtæki og smyglað út úr Bandaríkjunum til notkunar Nicolasar Maduros og félaga hans,“ sagði Merrick Garland dómsmálaráðherra Bandaríkjanna í yfirlýsingu.

Flugvélaleitarsíðan Flightradar24 sýndi að þotan flaug frá Santo Domingo í Dóminíska lýðveldinu til Fort Lauderdale í Bandaríkjunum í morgun.

Yfirvöld í Venesúela voru ekki lengi að bregðast við en í yfirlýsingu frá utanríkisráðuneytinu þar í landi sem send var út í dag segir:

„Enn og aftur stunda yfirvöld í Bandaríkjunum glæpastarfsemi sem ekki er hægt að lýsa sem öðru en þjófnaði.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert