Ræða við samningamenn um lausn gísla

Kamala Harris og Joe Biden.
Kamala Harris og Joe Biden. AFP/Robyn Beck

Joe Biden Bandaríkjaforseti ætlar í dag að funda með bandarískum samningamönnum í von um að ná samkomulagi um lausn gísla í átökum Ísraela og Hamas-samtakanna.

Hvíta húsið greindi frá þessu eftir fregnir um að sex gíslar sem voru í haldi á Gasasvæðinu hefðu verið drepnir, þar á meðal bandarískur ríkisborgari.

Kamala Harris, varaforseti og forsetaefni Demókrataflokksins, verður einnig viðstödd fundinn.

Bandaríkin í samstarfi við samningamenn frá Egyptalandi og Katar hafa eytt mörgum mánuðum í að koma í kring skiptum á gíslum og föngum á Gasasvæðinu, ásamt vopnahléi.

Vígamenn frá Hamas tóku 251 gísl í árás sinni á Ísrael 7. október sem varð kveikjan að stríðinu. 97 þeirra eru enn á Gasasvæðinu, þar á meðal 33 sem Ísraelsher segir að séu látnir.

Tugum gísla var sleppt lausum á meðan á vikulöngu vopnahléi stóð í nóvember.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert