Rask varð víða í Ísrael

Mótmælendur í Ísrael í gær.
Mótmælendur í Ísrael í gær. AFP

Rask varð á starfsemi fjöldamargra grunnskóla, nokkurra sveitafélaga, samgöngukerfa og spítala í Ísrael í dag þegar stærsta verkalýðsfélag landsins stóð fyrir verkfalli til að þrýsta á stjórnvöld að ná samningum um endurheimt gísla frá Hamas.

Hundruðir þúsunda Ísraela hafa safnast saman á götum landsins síðustu tvo daga til að krefjast þess sama en um er að ræða vítækustu aðgerðir í Ísrael gegn stjórnvöldum í landinu síðan stríðið á Gasa hófst fyrir nær 11 mánuðum síðan.

Ólöglegar aðgerðir

Aðdragandinn að þessum aðgerðum er sá að í gær greindi ísraelski herinn frá því að sex ísraelskir gíslar hefðu fundist látnir á Gasa. Þetta vakti mikla reiði í landinu en þar fer sá hópur sem telur ísraelsk stjórnvöld ekki gera nóg til að endurheimta gísla frá Hamas sífellt vaxandi.

Verkfallið sem fram fór í dag var skipulagt af verkalýðsfélaginu Histadrut og hófst klukkan sex í morgun en eins og áður sagði hafði það áhrif á starfsemi fjölda stofnanna og innviði í landinu. Til að mynda tóku engar flugvélar á loft frá flugvellinum í Tel Aviv um tveggja klukkustunda skeið.

Verkfallsaðgerðirnar tóku hinsvegar enda fyrr en áætlað var því verkalýðsréttur í Tel Aviv mat aðgerðirnar ólöglegar og fyrirskipaði að fólk skyldi aftur taka upp störf.

Í úrskurðinum var vísað til þess að ástæða aðgerðanna væri pólitísks eðlis en ekki efnahagslegs. Histadrut hlýddi úrskurðinu og tók verkfallið enda klukkan 14.30 að staðartíma.

Baðst afsökunar

Óánægju með samningsleysi Ísraelsstjórnar þegar kemur að gíslunum gætir ekki aðeins meðal íbúa landsins en Bandaríkjaforseti gaf í dag út að Benjamin Netanjahú forsætisráðherra Ísraels væri ekki að gera nóg til að ná samningum.

Spurður af blaðamönnum í Hvíta húsinu hvort hann teldi að Netanjahú væri að gera nóg til að ná samningum svarði Biden því: „Nei.“

Þá baðst forseti Ísraels, Isaac Herzog, afsökunar á því að stjórnvöld hefðu ekki gert nóg til að vernda 23 ára Ísraela sem var einn þeirra gísla sem fannst látin á Gasa.

„Ég biðst afsökunar fyrir hönd Ísraelsríkis, að okkur tókst ekki að vernda þig í hræðilegu hörmungunum 7. október, að okkur tókst ekki að koma þér heim heilu og höldnu,“ sagði forsetinn við útför gíslans sem fram fór í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert