Skutu niður 22 flugskeyti frá Rússum

Slökkviliðsmaður að störfum í Kænugarði eftir árásina í nótt.
Slökkviliðsmaður að störfum í Kænugarði eftir árásina í nótt. AFP/Sergei Supinsky

Úkraínumenn sögðust í morgun hafa skotið niður 22 flugskeyti frá Rússlandi sem var skotið í átt að Kænugarði, höfuðborg Úkraínu, og tveimur öðrum héruðum í landinu. Tveir særðust í árásunum.

Í borginni Sumy í norðausturhluta landsins varð miðstöð fyrir börn og munaðarleysingja fyrir skemmdum eftir flugskeytaárás í gærkvöldi. 13 særðust, þar á meðal fjögur börn, að því er borgarstjórinn Oleksandr Lysenko greindi frá á Telegram.

Úkraínski flugherinn sagði að hersveitir Úkraínu hefðu í nótt skotið niður 22 flugskeyti frá Rússum og 20 árásardróna.

AFP/Sergei Supinsky

Vitali Klitschko, borgarstjóri Kænugarðs, sagði tvo fullorðna einstaklinga hafa særst og að kviknað hefði í fjórum bílum í borginni.

Vyacheslav Gladkov, héraðsstjóri í Belgorod í Rússlandi sem er við landamærin að Úkraínu, sagði einn hafa særst í loftárás Úkraínumanna í nótt. Bætti hann við að skemmdir hefðu orðið á verslun og að aðstaða fyrir innviði hefði skemmst í borginni Belgorod, sem er samefnd héraðinu.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert