Vladimír Pútín Rússlandsforseti segir að hernaður Úkraínuhers í Kúrsk-héraði í Rússlandi muni ekki koma í veg fyrir sókn rússneskra hersveita í austurhluta Úkraínu.
Óvænt innrás Úkraínu í Kúrsk 6. ágúst hefur orðið til þess að um 130 þúsund manns hafa þurft að yfirgefa heimili sín og hafa Úkraínumenn náð völdum á hluta Kúrsk-héraðs.
Síðan þá hafa Rússar haldið áfram sókn sinni inn í austurhluta Úkraínu og hafa þeir ekki dregið herlið sitt á brott þaðan til aðstoðar í Kúrsk.
„Þeir ætluðu að stöðva sókn okkar inn í lykilhluta Donbas [héraðs]. Niðurstaðan er ljós…Þeim tókst ekki að stöðva sókn okkar í Donbas,“ sagði Pútín er hann ræddi við nemendur í Síberíu.
„Niðurstaðan er ljós. Já, fólk er að ganga í gegnum erfiða reynslu, sérstaklega í Kúrsk-héraði. En helsta markmið óvinarins – að stöðva sókn okkar í Donbas hefur ekki tekist,“ sagði hann.
Hann bætti við að sókn Rússa væri á „hraða sem við höfum ekki náð lengi“.
Úkraínsk stjórnvöld hafa sagt að helsta markmið þeirra með því að fara inn í Kúrsk væri að teygja á rússneska hernum og neyða hann til að draga herlið sitt frá austurhluta Úkraínu.