Banvænn hönnunargalli í Jaguar

Hönnunargalli í gírskiptingu Jaguar I-PACE bifreiðar kostaði sjö ára gamlan …
Hönnunargalli í gírskiptingu Jaguar I-PACE bifreiðar kostaði sjö ára gamlan dreng í Plymouth lífið í febrúar í fyrra að úrskurði dánardómstjóra embættisins sem ritað hefur stjórnarformanni Jaguar Land Rover bréf um málið. Ljósmynd/Lögreglan í Devon og Cornwall

Breskur dánardómari gagnrýnir útfærslu gírskiptingar rafmagnsbifreiðar framleiðandans Jaguar í kjölfar andláts sjö ára gamals drengs í Plymouth á Suðvestur-Englandi í febrúar í fyrra sem varð með þeim skelfilega hætti að drengurinn kramdist til ólífis milli tveggja bifreiða á meðan hann klæddi sig í skó eftir að hafa horft á eldri bróður sinn þreyta keppni í knattleiknum ruðningi, eða rugby.

Drengurinn, Alfie Tollett, galt með lífi sínu fyrir það sem aðstoðardánardómari umdæmisins Devon, Plymouth og Torbay, Deborah Archer, telur vera alvarlegan ljóð á ráði hönnuða framleiðandans gamalgróna – eins helsta flaggskips bresks bifreiðaiðnaðar í elstu manna minnum.

Ökumaður bifreiðarinnar sem kostaði Tollett litla lífið, Jaguar I-PACE – sá kostar nýr frá framleiðanda 70.000 bresk pund, jafnvirði 12,8 milljóna íslenskra króna – hugðist bakka færleik sínum. Ekki vildi þá betur til en svo að hann valdi fyrsta gír áfram án þess að horfa á hvað hann aðhafðist. Þess í stað studdist hann við snertinguna eina við gírvalið og ók bifreiðinni áfram í tíu sekúndur áður en hann áttaði sig á mistökunum.

Það var um seinan

Hafði Tollett þá þegar lent á milli Jaguar-bifreiðarinnar og þeirrar næstu fyrir framan á bifreiðastæðinu og hlotið þá áverka á brjóstholi er ekki þurfti að græða. Lífi drengsins varð ekki bjargað.

Kvað Archer dánardómari hönnun gírskiptingarinnar verulega ábótavant og hefði önnur útfærsla hennar að líkindum komið í veg fyrir banaslys. Í bréfi sínu til til stjórnarformanns framleiðandans Jaguar Land Rover sagði Archer hætt við fleiri banaslysum brygðist framleiðandinn ekki við og breytti tafarlaust þeirri hönnun að hægt væri að setja bifreiðina í gír, jafnt aftur á bak sem áfram, með því að þrýsta á sama hnappinn.

Rannsóknarnefnd vegna slyssins fékk að heyra þann vitnisburð að ökumaður Jaguar I-PACE-bifreiðarinnar sem hér átti í hlut hefði haft vinstri hönd á stjórntækjum gírskiptingar – enda bifreiðar á Bretlandsmarkaði með ökumannssætið hægra megin vegna vinstriumferðar á þarlendum vegum – og ekki þurft að horfa á hvað hann væri að gera á meðan hann hugðist hagræða bifreiðinni í stæði með því að aka henni aftur á bak.

Þess í stað hefði hann ekki gert greinarmun á gíravalinu og ekið bifreiðinni áfram án þess að fylgjast með því sem hann gerði. Ók hann bifreiðinni því áfram en ekki aftur á bak með þeim afleiðingum sem hér greinir.

BBC

Plymouth Herald

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert