Ashley Paul Griffith, ástralskur maður sem er fyrrverandi umönnunaraðili barna, hefur játað á sig 307 brot þar sem honum er gefið að sök að hafa meðal annars nauðgað og kynferðislega brotið á tugi ungra stelpna sem voru í hans umsjá og flestar voru undir 12 ára gamlar þegar brotin áttu sér stað.
Hefur Griffith verið lýst sem einum versta barnaníðingi í sögu Ástralíu.
BBC greinir frá.
Brotin áttu sér stað á milli áranna 2003 til 2022 í Brisbane í Ástralíu og á Ítalíu þar sem Griffith starfaði á ýmsum barnagæslustofnunum.
Ákærurnar á hendur honum voru meðal annars 28 nauðgunarákærur og 190 ákærur um ósæmilega meðferð. Að auki mátti finna ákærur um framleiðslu og dreifingu barnaníðsefnis en lögregla telur að Griffith hafi myndað öll sín brot.
Þá kemur fram í frétt breska ríkisútvarpsins að tekið hafi yfir tvo klukkutíma að lesa upp allar ákærurnar á hendur honum.
Griffith var handtekinn í ágúst 2022 af áströlsku alríkislögreglunni eftir að hún hafði fundið þúsundir mynda og myndskeiða sem hlaðið hafði verið upp á myrka vefinn.
Þrátt fyrir að andlit hafi verið klippt út úr myndefninu tókst lögreglu að rekja þau til Griffith vegna einstakra rúmfata sem sást í bakgrunni myndskeiða.
Griffith situr nú áfram í gæsluvarðhaldi og verður refsing hans ákveðin síðar.