Færir jólin fram í október

Nicolas Maduro forseti Venesúela.
Nicolas Maduro forseti Venesúela. AFP

Forseti Venesúela, Nicolas Maduro, hefur gefið út jólin þar í landi komi snemma í ár, nánar tiltekið þann 1. október. Markmiðið er að koma á hátíðaranda meðal landsmanna í kjölfar umdeildra forsetakosninga sem andstæðingar Maduro segja hann hafa svindlað í.

Maduro sem er 61 árs situr nú sitt sjötta kjörtímabil sem forseti en það eru ekki aðeins pólitískir andstæðingar hans heldur líka ýmsir þjóðarleiðtogar sem hafa haldið því fram að kosningasigur hans 26. júlí standist ekki skoðun. 

Mikill fjöldi Venesúelabúa hefur mótmælt niðurstöðum kosninganna en um 25 almennir borgarar hafa látið lífið í mótmælunum og um 2.400 verið handteknir.

Ekki í fyrsta sinn

Í sjónvarpsávarpi sínu til þjóðarinnar í dag sagði Maduro: „Til að heiðra ykkur, til að þakka ykkur fyrir, ætla ég að fyrirskipa að jólin verði fær fram til 1. október.“

Ekki er um að ræða fyrsta skipti sem Maduro breytir dagsetningu hátíðarinnar frá því hann var fyrst kjörinn forseti 2013 en í þetta skipti virðist það gert til að beina sjónum fólks frá forsetakosningunum í sumar.

Bandaríkin og nokkur Suður-Ameríkuríki styðja kröfu stjórnarandstöðunnar í Venesúela um sigur í kosningunum á meðan lönd á borð við Mexíkó, Kólumbíu og Brasilíu sem yfirleitt hafa verið nokkuð vinveitt Maduro hafa neitað að viðurkenna opinberar niðurstöður kosninganna án þess að sjá nákvæmar atkvæðatölur.

Kosningayfirvöld hafa gefið út að ekki sé hægt að gefa út kjörtölur þar sem tölvuþrjótar hafi spillt gögnunum sem voru fyrir hendi. Eftirlitsmenn hafa þó sagt að engar vísbendingar séu um slíkt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert