Maraþonhlaupari á sjúkrahús eftir árás

Rebecca Cheptegei (í miðjunni) setur klakapoka á andlitið í maraþoninu …
Rebecca Cheptegei (í miðjunni) setur klakapoka á andlitið í maraþoninu í París. AFP/Kirill Kudryavtsev

Kona frá Úganda sem keppti í maraþoni á Ólympíuleikunum í París hefur verið flutt á sjúkrahús eftir meinta alvarlega árás af hendi kærasta síns, að sögn lögreglunnar í Kenía.

Ráðist var á Rebbeccu Cheptegei eftir að kærasti hennar, Dickson Ndiema Marangach frá Kenía, hafði að sögn lögreglunnar læðst inn á heimili hennar í sýslunni Trans-Nzoia um klukkan 14 á sunnudag á meðan hún og börnin hennar voru í kirkju.

„Dickson, sem hafði útvegað sér bensín, byrjaði að hella því á Rebeccu áður en hann kveikti í henni,“ sagði lögreglan seint í gærkvöldi og bætti við að logarnir hefðu einnig slasað hann sjálfan.

Fram kemur að nágrannar hefðu bjargað parinu og flutt það á nærliggjandi sjúkrahús með „mörg brunasár“.

Ekkert kemur fram um hvort börn Cheptegei slösuðust í árásinni.

Lögreglan fer með rannsókn málsins en að hennar sögn hafði parið áður átt í ýmiss konar deilum.

Cheptegei lenti í 44. sæti í maraþoninu í París í sumar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert