Rauður dregill fyrir Pútín þrátt fyrir ásakanir

Pútín ásamt forseta Mongólíu, Ukhnaagiin Khurelsukh, í Ulaanbaatar í morgun.
Pútín ásamt forseta Mongólíu, Ukhnaagiin Khurelsukh, í Ulaanbaatar í morgun. AFP/Vyacheslav Prokofyev

Vladimír Pútín Rússlandsforseti hlaut hlýjar móttökur er hann kom í opinbera heimsókn til Mongólíu.

Þetta er fyrsta heimsókn hans til þjóðar sem er hluti af Alþjóðaglæpadómstólnum (ICC) síðan gefin var út handtökuskipun á hendur honum á síðasta ári.

Pútín lenti í höfuðborginni Ulaanbaatar í gærkvöldi og í morgun er hann mætti til fundar með forseta Mongólíu, Ukhnaagiin Khurelsukh, stóðu hermenn heiðursvörð fyrir hann, auk þess sem rauður dregill hafði verið lagður.

Stjórnvöld í Kænugarði, höfuðborg Úkraínu, Vesturlönd og mannréttindasamtök, hafa krafist þess að Pútín verði handtekinn.

Pútín og Ukhnaagiin Khurelsukh takast í hendur.
Pútín og Ukhnaagiin Khurelsukh takast í hendur. AFP/Kristina Kormilitsyna

Pútín er eftirlýstur af Alþjóðaglæpadómstólnum í Haag fyrir ólöglegan brottflutning úkraínskra barna eftir að hersveitir hans réðust inn í Úkraínu árið 2022.

Úkraínumenn hafa brugðist harkalega við heimsókn hans og saka Mongólíu um að „deila ábyrgðinni“ með „stríðsglæpum“ Pútíns eftir að stjórnvöld í landinu ákváðu að handtaka hann ekki á flugvellinum.

Dómstóllinn sagði í síðustu viku að öllum þjóðum sem eru hluti af honum beri skylda til að handtaka þá sem hann lýsir eftir.

AFP/Vyacheslav Prokofyev
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert