„Rusladrottningin“ ákærð fyrir glæp gegn umhverfinu

Rusladrottningin mætti með stór sólgleraugu í dómshúsið í morgun og …
Rusladrottningin mætti með stór sólgleraugu í dómshúsið í morgun og neitaði að svara spurningum fréttamanna. AFP/Henrik Montgomery

Ellefu einstaklingar sem tengdust sænska sorphirðufyrirtækinu Think Pink með einum eða öðrum hætti þurftu að mæta fyrir dóm í Svíþjóð í morgun eftir að hafa verið ákærðir fyrir að henda eitruðum úrgangi ólöglega á fjölmörgum stöðum í Stokkhólmi og þar í kring. AFP-fréttastofan greinir frá.

Ein þeirra sem ákærð er í málinu er fyrrverandi framkvæmdastjóri fyrirtækisins og nektardansmærin Bella Nilson, sem eitt sinn kallaði sig „Queen of Trash“ eða „Rusladrottningin“. Hún mætti síðust í dómshúsið við upphaf réttarhaldanna í morgun og neitaði að svara spurningum fréttamanna.

Annar ákærðu er ráðgjafi í umhverfismálum sem aðstoðaði fyrirtækið við að standast alla skoðun á starfseminni. 

200 þúsund tonn af eitruðum úrgangi

Um er að ræða umfangsmesta umhverfisglæpamál sem komið hefur upp í Svíþjóð, en málsgögnin eru um 45 þúsund síður og 150 vitni verða kölluð í vitnastúku. Talið er að réttarhöldin muni standa fram í maí. 

Fyrirtækið er sakað um að hafa hleypt út andrúmsloftið, hent eða grafið ólöglega um 200.000 tonn af eitruðum úrgangi á að minnsta kosti 21 svæði í og við Stokkhólm.

Meðal annars var um að ræða úrgang frá byggingarsvæðum, raftæki, málma, plast og dekk sem innihélt mikið magn eiturefnum eins og  blýi, kvikasilfri, PCB og arseniki, sem hefur stefnt lífríkinu, mönnum og dýrum hættu. 

Talið er að fyrirtækið hafi aldrei ætlað sér að farga úrganginum í samræmi við lög, en úrgangurinn var hvorki flokkaður né honum fargað í samræmi við löggjöf um umhverfisvernd.

Fyrirtækinu er gefið að sök að hafa hent úrgangi á …
Fyrirtækinu er gefið að sök að hafa hent úrgangi á 21 einu svæði í og við Stokkhólm. AFP/Stina Stjernkvist

Hlaut tvisvar eftirsótt viðskiptaverðlaun

Think Pink var aðeins starfandi í tvö ár, frá 2018 til 2020, og á þeim tíma voru bleikir ruslapokar frá þeim áberandi víða í Stokkhólmi. Sveitarstjórnir, byggingarfyrirtæki, íbúðakjarnar og einstaklingar keyptu þjónustu af fyrirtækinu sem hlaut eftirsótt sænsk viðskiptaverðlaun í tvígang.

Bella Nilson, sem nú hefur breytt nafninu sínu í Farbia Vancor, hefur áður komið fram í fjölmiðlum og sagst saklaus af öllum ásökunum. Hún sé fórnarlamb í málinu og að samkeppnisaðili hafi viljað koma henni fyrir kattarnef. 

Saksóknari í málinu segir að líklega hafi ekki tekist að rannsaka öll þau svæði þar sem úrgangi var hent ólöglega en þurft hafi takmarka hafi ákærurnar við 21 svæði þar sem tími rannsakenda hafi verið á þrotum. Það eigi hins vegar að duga til að sýna fram á að glæpurinn hafi verið kerfisbundinn.

Nokkur sveitarfélög hafa einnig krafist skaðabóta vegna hreinsunar á eitruðum úrgangi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert