Yfir 2.000 ásakanir um kynferðisbrot í skólum á Írlandi

Frá Dublin í Írlandi.
Frá Dublin í Írlandi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rannsókn á vegum írsku ríkisstjórnarinnar um meint kynferðisofbeldi sem nær yfir nokkra áratugi í skólum reknum af trúfélögum hefur leitt í ljós um 2.400 ásakanir um kynferðisbrot í yfir 300 skólum á landsvísu.

Menntamálaráðherra Írlands, Norma Foley, sagði í dag að niðurstöðurnar væri hræðilegar eftir að hún sá umfang kynferðisbrotanna í skýrslu ríkisstjórnarinnar í fyrsta skipti.

Alls eru 884 meintir ofbeldismenn tengdir ásökununum sem allir störfuðu í dag- og heimavistarskólum. Eru einhverjir skólanna enn reknir af trúfélögum.

Kynferðisbrot í skólum um land allt

Ásakanirnar ná alveg aftur til áttunda áratugarins og er talið að um helmingur hinna meintu ofbeldismanna sé nú látinn.

Foley sagði fréttamönnum í Dublin í gær að í skýrslunni megi finna skóla víðsvegar um Írland og að átakanlegt væri að lesa um umfang misnotkunar sem og fjölda meintra ofbeldismanna.

Í rannsókninni var haft samband við 73 trúfélög sem ráku eða reka enn skóla á Írlandi. Þar af voru 42 þeirra með upplýsingar um kynferðisofbeldi sem hafði átt sér stað.

Niðurstöður rannsóknarinnar voru byggðar á þeim upplýsingum sem rannsakendur fengu frá þeim félögum sem höfðu upplýsingar en einnig frá eftirlifendum.

Mögulega standi til að stækka mengið

Ákveðið var að hefja rannsóknina í kjölfar heimildarmyndar þar sem rannsakaðar voru ásakanir um kynferðislegt ofbeldi í skóla í Dublin.

Var nú ákveðið að skoða einungis skóla sem reknir eru af rómversk-kaþólskum trúfélögum en segja yfirvöld á Írlandi að mögulega verði rannsóknin útvíkkuð þannig að hún nái til fleiri skóla í landinu sem ekki eru reknir af kaþólskum trúfélögum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert