Eldsvoðinn „samansafn áratugalangra mistaka“

Eldsvoðinn í Grenfell-turninum varð 14. júní 2017 í vesturhluta Lundúna.
Eldsvoðinn í Grenfell-turninum varð 14. júní 2017 í vesturhluta Lundúna. AFP/Daniel Leal

Eldsvoðinn í Grenfell-turninum sem varð 72 manneskjum að bana árið 2017 var „samansafn áratugalangra mistaka“ stjórnsýslunnar og starfsfólks innan byggingariðnaðarins.

Þetta kemur fram í niðurstöðum lokaskýrslu um eldsvoðann sem var birt í morgun.

Í skýrslunni, sem markar endalok langrar rannsóknar, eru fyrirtæki sem útveguðu klæðningu og fleira í tengslum við byggingu turnsins sökuð um „kerfisbundinn óheiðarleika“. 

Dómarinn fyrrverandi, Martin Moore-Bick, leiddi rannsóknina. 

Skýrslan var kynnt á blaðamannafundi í morgun.
Skýrslan var kynnt á blaðamannafundi í morgun. AFP/Justin Tallis

Fljótur að breiða úr sér

Eldurinn, sem kviknaði snemma dags hinn 14. júní, breiddi fljótt úr sér í gegnum bygginguna í vesturhluta London vegna sérlega eldfimrar klæðningar utan á henni.

Eldurinn kviknaði í frysti á fjórðu hæð og aðeins um hálftíma síðar hafði hann náð upp á efstu hæð blokkarinnar, sem var 24 hæða. 

Eldsvoðinn er sá versti í íbúðabyggingu í Bretlandi síðan í síðari heimsstyrjöldinni. 

AFP/Adrian Dennis

Sinnuleysi slökkviliðsins

Slökkviliðið í Lundúnum er einnig harðlega gagnrýnt í skýrslunni fyrir sinnuleysi yfirmanna. Þeir greindu ekki öðrum frá hættunni sem stafaði af aukinni notkun umræddrar klæðningar og þjálfuðu slökkviliðsmenn ekki sérstaklega vegna hennar.

„Að mínu mati verður ekkert réttlæti fyrr en fólk verður dæmt í fangelsi,“ sagði Sandra Ruiz, sem missti 12 ára frænku sína, Jessicu Urbano Ramirez, í eldsvoðanum.

Lögreglan í Lundúnum segir aftur á móti að rannsókn hennar á málinu munu standa yfir til loka næsta árs. Eftir það munu saksóknarar taka eitt ár í að ákveða hvort einhver verður ákærður.

Eintak af skýrslunni.
Eintak af skýrslunni. AFP/Justin Tallis
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert