Fordæma skotárás 14 ára drengs

Joe Biden, Donald Trump og Kamala Harris hafa öll tjáð …
Joe Biden, Donald Trump og Kamala Harris hafa öll tjáð sig um skotárásina. Samsett mynd

Báðir forsetaframbjóðendur Bandaríkjanna auk Joes Bidens Bandaríkjaforseta hafa fordæmt skotárásina sem varð í framhaldskóla í Georgíuríki í dag.

Byssumaðurinn, sem er 14 ára drengur, hóf skothríð á göngum skólans síns með þeim afleiðingum að tveir samnemendur hans og tveir kennarar létu lífið. Til viðbótar voru níu fluttir á spítala vegna áverka.

Apalachee-framhaldsskólinn þar sem skotárásin átti sér stað er staðsettur í bænum Winder í útjaðri Atlanta en árásin er sú mannskæðasta sem hefur átt sér stað í skólum Georgíuríkis.

Nemendur í skólanum hafa lýst hryllingnum sem þeir upplifðu þegar þeir komust að því að ekki væri um að ræða æfingu á viðbrögðum vegna skotárásar, heldur alvöru árás.

Enn önnur áminningin

Joe Biden Bandaríkjaforseti birti áðan yfirlýsingu á vef Hvíta hússins þar sem hann fordæmir árásina en þar segir meðal annars að um sé að ræða „aðra áminningu um það hvernig byssuofbeldi getur eyðilagt samfélög“.

Þá talar hann um að banna þurfi byssur sem ætlaðar eru til árása í landinu og krefjast þess að önnur skotvopn séu geymd á öruggum stöðum.

„Eftir áratugi af aðgerðaleysi þurfa þingmenn Repúblikanaflokksins loksins að segja „nóg er nóg“ og vinna með demókrötum að því að koma á laggirnar skynsamlegri byssulöggjöf,“ segir í yfirlýsingu Bidens.

Tilgangslaus harmleikur

Kamala Harris, varaforseti Bandaríkjanna og forsetaefni Demókrataflokksins í komandi kosningum, ræddi skotárásina á kosningarfundi í borginni North Hampton fyrr í kvöld.

„Auðvitað erum við þakklát viðbragðsaðilum og lögreglunni sem var á vettvangi. En þetta er bara tilgangslaus harmleikur, ofan á svo marga tilgangslausa harmleiki, og það er bara svívirðilegt að á hverjum degi í okkar landi, í Bandaríkjunum, þurfi foreldrar að senda börn sín í skólann með áhyggjur af því hvort barnið komi heim lifandi eða ekki,“ sagði Harris og bætti við:

„Við verðum að stöðva þetta og við verðum að binda enda á þennan faraldur byssuofbeldis í landinu okkar í eitt skipti fyrir öll. Þið vitið, þetta þarf ekki að vera svona. Þetta þarf ekki að vera svona.“

Ruglað skrímsli

Mótframbjóðandi Harris, Donald Trump fyrrverandi Bandaríkjaforseti, tjáði sig einnig um árásina á sínum eigin samfélagsmiðli, Truth Social. Þar kallaði hann 14 ára byssumanninn „ruglað skrímsli (e. deranged monster)“.

„Hugur okkar liggur hjá fórnalömbunum sem lentu í  skotárásinni í Winder og ástvinum þeirra. Þessi elskuðu börn voru tekin frá okkur allt of snemma af veiku og rugluðu skrímsli,“ sagði í yfirlýsingunni.

New York Times

BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert