Íhuga að hækka ferðamannaskatt í Ítalíu

Frá Róm, höfuðborg Ítalíu.
Frá Róm, höfuðborg Ítalíu. Ljósmynd/Colourbox

Ítalska ríkisstjórnin íhugar nú að hækka ferðamannaskatt í Róm samkvæmt drögum að frumvarpi sem komu fram í sumar. Ferðaþjónustuhópar landsins hafa lýst óánægju sinni og segja að ákvörðunin myndi fela í sér fælingarmátt fyrir ferðamenn sem vilja heimsækja landið. Með frumvarpinu yrði létt af þrýstingi þeirra borga í landinu sem hafa séð gífurlega hækkandi tölur ferðamanna auk þess sem þeim yrði veittur fjárhagslegur stuðningur. 

Samkvæmt fréttaveitunni AFP stendur til að hækka skatt á hótelgistingu þannig að 10 evrur yrðu greiddar í skatt fyrir herbergi sem kosta 100 evrur. Þess ber að nefna að í dag greiða ferðamenn 5 evrur í skatt fyrir álíka kostnaðarsöm herbergi.

Þá yrðu greiddar 15 evrur í skatt fyrir 400 evra herbergi og 25 evrur fyrir svítur sem kosta 750 evrur eða meira.

Myndi ná til allra sveitarfélaga

„Við megum ekki fæla ferðamenn frá með of háum sköttum,“ segir Marina Lalli, forstöðumaður ítalska ferðamálasambandsins, og bætir jafnframt við að ákvörðunin myndi hafa þau áhrif að ferðamenn myndu forðast að heimsækja landið.

„Við erum nú þegar með mjög háan virðisaukaskatt sem er 22 prósent og ef við bætum við nýjum sköttum eigum við á hættu að skaða samkeppnishæfni Ítalíu, sérstaklega fyrir skipulagðar ferðir þar sem allt er innifalið.“

Ferðamálaráðherra landsins, Daniela Santanche, gaf málinu ekki undir fótinn eftir að greint var frá fréttum af fyrirhugaðri skattahækkun en neitaði hún þó ekki frumvarpinu.

Þá hefur hún tjáð sig á samfélagsmiðlum þar sem hún sagði að ferðamannaskattur væri til umræðu sem hjálp við að bæta ferðaþjónustu þar í landi og gera ferðamenn ábyrgari.

Samkvæmt AFP myndi fyrirhugaður ferðamannaskattur ná til allra 7.904 sveitarfélaga landsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert