Saka Rússa um kosningaáróður

Vladimír Pútín ræðir við nemendur í Síberíu í fyrradag. Bandaríkjamenn …
Vladimír Pútín ræðir við nemendur í Síberíu í fyrradag. Bandaríkjamenn brigsla stjórn hans um að reyna að hagræða kosningaúrslitunum í nóvember. AFP/Vyacheslav Prokofyev

Bandaríkjamenn ásaka nú rússneska fjölmiðla og áhrifamikla ráðamenn þar í landi um að hyggjast reyna að hagræða úrslitum bandarísku forsetakosninganna í nóvember með umsvifamikilli herferð sem þegar sé hafin.

Viðhöfðu ráðuneyti dóms-, utanríkis- og fjármála í Bandaríkjunum að eigin sögn aðgerðir til að draga úr áhrifum rússnesku áhrifabylgjunnar sem sögð er hafin.

Leppfyrirtæki í Tennessee

Ásakar Merrick Garland ríkissaksóknari fjölmiðilinn RT, sem áður gekk undir heitinu Russia Today, um að fjármagna á laun leppfyrirtæki í Tennessee til að dreifa áróðri til íbúa Bandaríkjanna.

Segir saksóknari ætlun stjórnarherranna í Moskvu að tryggja sér þau kosningaúrslit sem þeim séu hagfelldust. Sagði John Kirby, talsmaður þjóðaröryggismála í Hvíta húsinu, að ætlun Rússa væri að draga úr alþjóðlegum stuðningi við Úkraínu í átökum landsins við rússneska innrásarliðið og um leið hafa áhrif á val bandarískra kjósenda í kjörklefanum í nóvemberbyrjun.

BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert