Sjö drepnir í loftárás Rússa á Lvív

Björgunarfólk að störfum í Lvív eftir árás Rússa.
Björgunarfólk að störfum í Lvív eftir árás Rússa. AFP

Sjö manns voru drepnir, þar á meðal þrjú börn, í loftárás Rússa á borgina Lvív í vesturhluta Úkraínu.

Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, segir að um hryðjuverkaárás hafi verið að ræða.

„Alls hafa sjö manns látist í Lviv, þar á meðal þrjú börn,” sagði Ígor Klímenkó, innanríkisráðherra Úkraínu, á Telegram.

Sírenur ómuðu í Lvív fyrir sólarupprás í morgun, að sögn borgarstjórans Andrí Sadoví, sem ráðlagði fólki að leita skjóls á sama tíma og loftvarnarkerfi reyndu að skjóta niður flugskeyti frá Rússum.

Um 40 manns særðust í árásinni, að sögn embættis saksóknara í Úkraínu. Íbúðabyggingar eyðilögðust í miðborg Lvív, auk skóla og fleiri stofnana.

AFP

Síðan Rússar réðust inn í Úkraínu í febrúar 2022 hafa þeir skotið á loft fjölda árásardróna og gert flugskeytaárásir á Úkraínu.

Lvív hefur að mestu leyti sloppið við helstu átökin síðan stríðið hófst en í síðustu viku skutu Rússar á orkuinnviði í borginni sem olli rafmagnsleysi, að sögn embættismanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka