Utanríkisráðherra Úkraínu, Dmítró Kúleba, hefur sagt af sér embætti. Forseti úkraínska þingsins greindi frá þessu í morgun.
Afsögnin er sögð hluti af mikilli uppstokkun í úkraínsku ríkisstjórninni.
Ruslan Stefantsjúk, forseti þingsins, sagði að þingið hefði fengið uppsagnarbréfið og að greidd yrðu atkvæði um afsögnina fljótlega.
Kúleba, sem er 43 ára, hefur verið utanríkisráðherra frá árinu 2020. Síðan Rússar réðust inn í landið 2022 hefur hann ferðast víða um heiminn í von um stuðning Vesturlanda í stríðinu og refsiaðgerðir gegn Rússum.
Þó nokkrir úkraínskir ráðherrar sögðu af sér embætti í gær, þar á meðal dómsmálaráðherrann.