Helsta markmið Rússa að sölsa Donbas undir sig

Vladimír Pútín í Vladivostok í morgun.
Vladimír Pútín í Vladivostok í morgun. AFP/Vyacheslav Prokofyev

Vladimír Pútín Rússlandsforseti segir að helsta markmið hans í Úkraínu eftir 30 mánaða stríð sé að sölsa undir sig Donbas í austurhluta landsins. Hann segir að óvænt árás Úkraínu á Kúrsk-hérað í Rússlandi hafi auðveldað þetta verkefni.

Pútín ræddi við fjölmiðla degi eftir að Rússar gerðu loftárás á borgina Lviv í vesturhluta Úkraínu þar sem sjö voru drepnir, þar á meðal þrjú börn. Einnig hafa Rússar sótt fram að undanförnu í Donbas-héraði.

Síðan Rússar réðust inn í Úkraínu í febrúar árið 2022 og mistókst að ná höfuðborginni Kænugarði á sitt vald hafa þeir breytt áformum sínum og einbeitt sér í staðinn að austurhluta Úkraínu.

Úkraínskir hermenn í Pokrovsk í Donbas-héraði í síðasta mánuði.
Úkraínskir hermenn í Pokrovsk í Donbas-héraði í síðasta mánuði. AFP/Roman Pilipey

„Markmið óvinarins (í Kúrsk) var að neyða okkur til að hafa áhyggjur, beina hersveitum okkar annað og hætta sókn okkar á lykilsvæðum, sérstaklega í Donbas, þar sem frelsun er okkar helsta markmið,“ sagði Pútín er hann var staddur í Vladivostok í austurhluta Rússlands.

Rússar halda því fram að Donbas-hérað og þrjú önnur úkraínsk héruð séu hluti af þeirra landsvæði. 

Rússneskar hersveitir hafa í sumar sótt hratt fram og eru þær nú staddar um 12 kílómetrum frá borginni Pokrovsk, sem er lykilsvæði í austurhluta Úkraínu, en þaðan hafa þúsundir manna flúið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert