„Lögreglan bjargaði lífi mínu“

Gisele P. á leið í dómshúsið í morgun í fylgd …
Gisele P. á leið í dómshúsið í morgun í fylgd barna sinna. AFP/Christophe Simon

Frönsk kona segir að lögreglan hafi bjargað lífi hennar með því að koma upp um glæpi eiginmanns síns.

Eiginmaðurinn er sakaður um að hafa leyft tugum manna að nauðga henni á meðan hún var í lyfjamóki.

„Lögreglan bjargaði lífi mínu með því að rannsaka tölvu herra P.,“ sagði Gisele P. fyrir dómi í borginni Avignon í suðurhluta Frakkalands og átti þar við eiginmanninn. Hann er einn rúmlega 50 manna sem eru sakaðir um að hafa nauðgað henni.

Gisele P. ásamt lögmanni sínum Stephane Babonneau.
Gisele P. ásamt lögmanni sínum Stephane Babonneau. AFP/Christophe Simon

Veröldin að liðast í sundur

Gisele P., sem er 71 árs, hafði haldið ró sinni og verið þögul fyrstu þrjá daga réttarhaldanna og aðeins tjáð sig í gegnum lögmenn sína.

En þegar hún steig í vitnastúkuna í morgun sýndi hún aftur á móti tilfinningar sínar þegar hún minntist þess þegar lögreglan sýndi henni í fyrsta sinn árið 2020 myndir af áratugalangri kynferðislegri misnotkun sem eiginmaður hennar Dominique P. skipulagði og kvikmyndaði.

„Veröld mín er að liðast í sundur. Mér finnst allt vera að liðast í sundur. Allt sem ég hef byggt upp síðustu 50 árin,“ sagði Gisele P.

Florian P. (til hægri) og Caroline Darian (í miðjunni), börn …
Florian P. (til hægri) og Caroline Darian (í miðjunni), börn Gisele P. og Dominique P. á leið í dómsalinn í morgun. AFP/Christophe Simon

„Satt best að segja er hryllilegt fyrir mig að sjá þetta,“ sagði hún um myndirnar, á meðan eiginmaður hennar hlustaði niðurlútur.

„Ég ligg hreyfingarlaus á rúminu þar sem mér er nauðgað,“ bætti hún við og sagði myndirnar „villimannslegar“.

Nauðganir, ekki kynlíf

Gisele P. taldi loksins í sig kjark til að horfa á myndirnar sem fundust í tölvu eiginmannsins í maí síðastliðnum. Í vitnastúkunni tók hún fram að aldrei hefði verið um kynlíf að ræða heldur nauðganir. Lagði hún áherslu á að hún hefði aldrei tekið þátt í makaskiptum eða annars konar frjálsu kynlífi.

Lögmenn sumra þeirra sem eru sakaðir um nauðganirnar gáfu í skyn í gær að hjónin hefðu verið í opnu sambandi og að ólíklegt væri að Gisele P. hefði ekki vitað af misnotkuninni áratuginn sem hún átti sér stað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert