„Nýtt“ myndskeið frá dauðadegi Kennedy

John F. Kennedy örfáum augnablikum áður en hann var skotinn …
John F. Kennedy örfáum augnablikum áður en hann var skotinn til bana úr launsátri. Ljósmynd/Bettmann/CORBIS)

Áður óséð myndband af augnablikunum eftir að John F. Kennedy, þáverandi forseta Bandaríkjanna, var ráðinn bani er nú á uppboði.

Myndskeiðið er tekið upp á 8mm filmu og sýnir stutt brot frá deginum örlagaríka í Dallas í Texasríki fyrir 60 árum þegar forsetinn var skotinn af Lee Harvey Oswald úr launsátri.

Kennedy var í heimsókn í borginni þann 22. nóvember 1963 en vörubílstjórinn Dale Carpenter hafði vonast til að berja forsetahjónin augum og ná þeim á filmu.

Carpenter missti af tækifærinu og hafði því haldið á annan stað til að reyna aftur. Náði hann í staðinn myndbandi af forsetabílnum þeytast fram hjá á leiðinni á nálægt sjúkrahús með lík forsetans um borð, en meðal annars má sjá leyniþjónustumann hanga utan á bílnum.

Blóðslettur á Chanel-dragtinni

Myndbandið er alls ekki það eina af árásinni eða eftirmálum hennar en veitir aftur á móti nýtt sjónarhorn á sögulegan atburð.

Frægasta myndskeiðið af árásinni var tekið upp af Abraham Zapruder og er aðeins 26 sekúndur á lengd. Má þar sjá augnablikið sem forsetinn er skotinn til bana þó að erfitt sé að greina það sökum myndgæða sjöunda áratugarins.

Kennedy var úrskurðaður látinn um 30 mínútum eftir skotið og minna en tveimur tímum síðar sór varaforseti hans Lyndon B. Johnsson embættiseið með ekkju Kennedy, Jacqueline Kennedy, sér við hlið enn íklædda bleiku Chanel-dragtinni með blóðslettum eiginmannsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert