Spagettíið endalok matarmenningar heimsins?

Varan hefur vakið hörð viðbrögð.
Varan hefur vakið hörð viðbrögð. Skjáskot/Heinz

Bandaríski matvöruframleiðandinn Heinz er ekki aðeins þekktur fyrir tómatsósu og bakaðar baunir heldur líka fyrir að fara nokkuð frjálslega með ítalska matargerð.

Á síðustu árum hefur Heinz kynnt ýmsar nýjungar sem ekki hafa sést á markaði áður á borð pasta í formi hinna víðfrægu gulu skósveina og niðursoðna „spagettíhringi“. Nýjasta viðbótin í vörulínu fyrirtækisins hefur þó vakið einstaklega mikil viðbrögð en það er hinn sívinsæli ítalski réttur, spagettí carbonara, nema nú í dós.

Heinz segir ástæðuna fyrir nýja réttnum vera sú að rannsóknir sýni að ungt fólk í dag vilji helst njóta fljótlegra og einfaldra máltíða sem ekki krefjast flókinnar eldamennsku.

Eins og kattamatur?

Í samtali við breska ríkisútvarpið var ítalski stjörnukokkurinn Alessandro Pipero, sem gjarnan er kallaður carbonara-kóngurinn, spurður hvort um væri að ræða endalok matarmenningar í heiminum eða skref inn í framtíðina.

„Í dós segirðu? Eins og kattamatur?“ var svar Pipero sem hljómaði ekki par sáttur.

Hann bætti við: „Ég veit ekki alveg hvernig ég á að svara þessu, ættum við ekki bara að halda okkur við að setja hluti eins og Coca-Cola í dós?“

„Þetta eyðilagði daginn minn

Þá hefur vakið athygli að innihald pastaréttsins í dósaformi er allt annað en í hefðbundnu carbonara.

Í dósinni er sauðaostur, ostaduft, léttmjólk, maísmjöl, sykur og hvítlauksbragðefni á meðan hinn hefðbundni réttur er útbúinn úr eggjarauðum, svörtum pipar, pecorino-osti og fleski.

Rétturinn hefur vakið mikla athygli á samfélagsmiðlum en þar eru skoðanir mjög skiptar.

„Þetta eyðilagði daginn minn,“ sagði einn netverji og annar spurði hvort um væri að ræða aprílgabb.

Enn annar velti fyrir sér hvort hann væri komin til himnaríkis og einhver álíka spenntur skrifaði: „Þessi réttur fer beint í matarkörfuna mína.“

Guardian

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert